Fréttir

Grindvíkingar eru með taugarnar þandar

By Miðjan

April 22, 2024

„Er það bæjarstjórnin, bæjarstjórinn, fjármálaráðherra, forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, ferðamálaráðherra, atvinnuvegaráðuneytið, hver ber ábyrgð á þessu máli?“ Vilhjálmur Árnason.

Hamfarir „Taugarnar eru þandar. Já, þær eru mjög þandar,“ sagði þingmaðurinn og Grindvíkingurinn Vilhjálmur Árnason.

„Það er margt sem þenur taugarnar, mjög margt. Grindvíkingar hafa fundið fyrir miklum velvilja og fólk segist skilja aðstæður eða kannski ekki beint aðstæður heldur skilur að áhyggjurnar séu miklar. En umfjöllunin er alltaf um landris og eldgos og hvernig jörðin er að haga sér. Það er bara eitthvað allt annað mál sem við Grindvíkingar erum löngu hætt að pæla í. Það er miklu frekar: Hvar eigum við að búa? Hvað eigum við mikið til þess að ákveða hvar við eigum að búa? Hvað kostar það okkur að flytja? Hvað eigum við að hafa leigusamninginn lengi? Hvar eiga börnin að vera í skóla? Hvert eiga þau að fara í íþróttir? Hvað verður um fyrirtækið? Hvað ef ég kaupi húsnæði þarna, fæ ég þá fyrirtækið í hausinn seinna? Opnanir og lokanir — svona væri hægt að halda endalaust áfram,“ sagði Vilhjálmur.

„Það er fólk að vinna að þessu úti um allt og gera sitt besta og við áttum okkur alveg á því. En vandamálið er kannski það hvað þetta er úti um allt þannig að maður hefur ekki á hreinu hvort það sé verið að halda öllum boltum á lofti eða ekki. Er það bæjarstjórnin, bæjarstjórinn, fjármálaráðherra, forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, ferðamálaráðherra, atvinnuvegaráðuneytið, hver ber ábyrgð á þessu máli?

Félagsmálaráðuneytið og aðrir, er búið að hafa samband við fólk sem var í sjálfstæðri búsetu, hætt að vinna en býr kannski á hjúkrunarheimili núna án þess að þurfa þess? Enginn hefur heyrt í þeim. Þannig að það er ekki bara upplýsingaóreiða heldur frekar upplýsingaleysi sem veldur þessum áhyggjum og við þurfum einhvern veginn að taka saman á því og bæta úr því strax.“