Órökstuddar sérhannaðar sparnaðartillögur á umgjörð unglinganna okkar er eitthvað sem við íbúar þurfum að stöðva.
Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi á Seltjarnanesi, skrifar:
Deili þessu hingað til að upplýsa bæjarbúa að á morgun á að staðfesta 40% niðurskurð á starfsemi félagsmiðstöðvarinnar Selsins og niðurskurð á launaliðnum upp á 52%. Ég vil líka biðla til allra sem hafa stutt Sjálfstæðisflokkinn til að taka áskorun sem kemur neðst í póstinum.
En fyrst nokkrir punktar til upplýsinga:
Þú gætir haft áhuga á þessum
- Félagsmiðstöðin er eina starfsemin í fjárhagsáætluninni sem lendir í tugprósenta niðurskurði.
- Engin rök hafa verið lögð fram fyrir niðurskurðinum. Stundum er talað um lélega fjárhagsstöðu bæjarins en í næstu ræðu er talað um hvað bærinn stendur sterkt fjárhagslega.
- Ef rökin væru einfaldlega sparnaður þá er ágætt að minna á að Selið þarf ekki nema að taka þátt í að bjarga einum unglingi á fimm ára fresti til þess borga sig til baka með sparnaði í félagslega kerfinu. Fyrir utan þau jákvæðu áhrif sem félagsmiðstöðin hefur á unglingahópinn í heild sinni með starfi sínu og samstarfi við grunnskólann.
- Selið hefur verið stór hluti af þeirri jákvæðu upplifun sem það að alast upp á Nesinu er. Selið hefur haldið utan um nemendaráð, ungmennaráð, félagslíf skólans, leikritin, klúbba, námskeið og margt fleira.
- Selið hefur verið einn af lykilaðilunum í samstarfi við foreldra, skólann og íþróttafélagið við að draga úr unglingadrykkju og byggja upp félagslega sterkan einstaklinga sem hafa oftar en ekki láta til sín taka í nemendaráðum, leikritum, nefndum og ráðum innan framhaldsskólanna eftir útskrift.
- Á meðan flest sveitarfélög í kringum okkur eru að gefa í til að halda betur utan um unglingahópinn sinn og byggja upp jákvæða félagslega virkni í kjölfarið af Covidfaraldrinum ætlar Seltjarnarnesbær að skera niður starfsemina og fagstarfið sérstaklega. Fjöldi starfsmanna verður með þessu langt undir þeim viðmiðum sem önnur sveitarfélög fara eftir í skólum af sömu stærðargráðu og Való. Við það má svo bæta að önnur sveitarfélög hafa öll starfandi æskulýðsfulltrúa eða aðra miðlæga starfsemi sem styður við fagstarfið félagsmiðstöðva og frístundaheimilin sérstaklega en það höfum við ekki heldur.
- Í vor skrifuðu 740 íbúar undir mótmælabréf þar sem niðurskurði á starfsemi Selsins var mótmælt. Við í minnihlutanum erum búin að reyna allt sem við getum til þess að fá meirihlutann til þess að falla frá þessu það hefur ekki borið árangur hingað til.
Þá að áskoruninni!
Nú þekki ég svo marga klára og öfluga Seltirninga sem hafa stutt Sjálfstæðisflokkinn í gegnum tíðina, sum ykkar hafa gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn og aðrir hafa einfaldlega bara alltaf kosið hann.
Ég skora á ykkur að láta í ykkur heyra, senda póst á bæjarfulltrúa eða mótmæla þessu með öðrum hætti. Þessi fjórir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem sitja í bæjarstjórn byggja vald sitt á ykkar stuðningi og ef þið látið í ykkur heyra þá getið þið raunverulega haft áhrif á ákvörðun þeirra og þar af leiðandi alla umgjörð tómstunda- og forvarnarstarfs unglinga á Seltjarnarnesi.
Það er engin tilviljun að Seltjarnarnes og Ísland hefur náð svona miklum árangri í forvörnum og öflugu tómstundastarfi unglinga. Það er ekki af ástæðulausu að önnur sveitarfélög, íslenska ríkið og löndin í kringum okkur eru að styðja með auknum hætti við tómstundastarf barna og ungmenna. Órökstuddar sérhannaðar sparnaðartillögur á umgjörð unglinganna okkar er eitthvað sem við íbúar þurfum að stöðva.