- Advertisement -

Grimmur andstöðuhópur hefur rekið linnulausan skemmdarverkahernað

Ég býð öllum sem vilja sjá breytingar, umbætur og bætt kjör almennings á Íslandi að halda út í veröld nýrra möguleika, veröld vonar og veröld sigra.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Ný forystusveit í íslenskri verkalýðshreyfingu hefur stigið fram á síðustu árum. Þar hafa komið fram leiðtogar sem hafa tekið slaginn í almannaumræðunni, boðið sig fram í kosningum í sínum aðildarfélögum og haft betur, og sýnt og sannað að þeir hafa baráttuþrek, þor og dug. Þessir leiðtogar hafa á bak við sig fjölda aðildarfélaga, þar á meðal tvö langstærstu félög verkafólks á landinu, Eflingu og VR.

Nú eru liðin fjögur ár frá byltingu minni og B-listans í Eflingu og fimm ár frá byltingu Ragnars Þórs í VR. Við höfum eftir það verið skoruð á hólm á vettvangi félaga okkar með ýmsum leiðum en alltaf staðið uppi sem sigurvegarar. Ég og Ragnar höfum myndað sterka fylkingu með öðrum leiðtogum í hreyfingunni. Einn okkar öflugasti bandamaður er Vilhjálmur Birgisson, sannur leiðtogi verkafólks, sem í dag er formaður Starfsgreinasambandsins.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Ragnar Þór, Sólveig Anna og Vilhjálmur:
Við höfum talað tæpitungulaust um kjör hinna lægst launuðu, um brotastarfsemi á vinnumarkaði og við höfum krafist jöfnuðar með krónutöluhækkunum launa.

Saman höfum ég, Vilhjálmur og Ragnar leitt risavaxin verkefni á sviði kjarasamningagerðar til farsælla lykta. Það á við um Lífskjarasamningana 2019 en einnig erfiða samninga við stóra viðsemjendur á borð við Reykjavíkurborg. Við stóðum gegn tilraunum stjórnvalda og atvinnurekenda til að skerða kjör almennings í Covid19-kreppunni. Við höfum óhrædd troðið nýjar slóðir í umræðunni um fjármálakerfið, húsnæðismál og lífeyrissjóðina. Við höfum talað tæpitungulaust um kjör hinna lægst launuðu, um brotastarfsemi á vinnumarkaði og við höfum krafist jöfnuðar með krónutöluhækkunum launa.

Allur íslenskur almenningur veit, sér og skilur að ný forysta hefur rutt sér til rúms innan verkalýðshreyfingarinnar. Almenningur veit, sér og skilur að við höfum margítrekað sótt og fengið umboð félagsfólks okkar til forystuhlutverka. Við höfum sýnt íslenskum almenningi fram á fullt erindi okkar og hæfni til að leiða verkalýðsbaráttu á landsvísu.

ASÍ:

Þar er allt leyfilegt. Ásakanir, hótanir, persónuverndarbrot, óhróður – ekkert er of lágkúrulegt fyrir þennan hóp en þó er honum ofviða að standa fyrir máli sínu þegar kemur að málefnalegum ágreiningi.

Eini aðilinn á Íslandi sem þykist ekki vita, sjá og skilja er Alþýðusamband Íslands. Þar hefur grimmur andstöðuhópur rekið linnulausan skemmdarverkahernað gegn okkur árum saman. Þar er allt leyfilegt. Ásakanir, hótanir, persónuverndarbrot, óhróður – ekkert er of lágkúrulegt fyrir þennan hóp en þó er honum ofviða að standa fyrir máli sínu þegar kemur að málefnalegum ágreiningi. Jafnvel þótt að í þessum hópi séu engir fulltrúar sem að nokkur heilvita manneskja getur látið sér detta í hug að hafi burði til að leiða baráttu vinnandi fólks á þessu landi, þá ætlar þessi hópur ekki að leyfa að forysta ASÍ verði látin endurspegla breytta tíma í hreyfingunni.

Í hugarheimi þessa hóps má hið sjálfsagða, sanngjarna og eðlilega ekki gerast – að lýðræðislega kjörnir, þaulreyndir og hæfir leiðtogar nýrra afla fái að veljast til forystu ASÍ á þingi þess. Það þarf að stoppa með öllum leiðum, hvort sem það er með því að krefjast brottreksturs allra þingfulltrúa Eflingar af þinginu eða með því að stilla upp augljóslega vanhæfum einstaklingum til veigamestu embætta sambandsins.

Ég ritaði greinarflokk í fjórum pörtum á Kjarnanum í sumar þar sem ég lýsti hnignun Alþýðusambandsins síðustu áratugi. Þar lýsti ég þeirri von minni að endurnýjun gæti átt sér stað og umbætur hafist. Í síðustu greininni skrifaði ég: „Tak­ist ASÍ ekki að breyta um kúrs er aðeins ein önnur leið fær: Hún er sú að þau félög sem vilja starfa í verka­lýðs­hreyf­ingu sem er raun­veru­legt fram­fara- og mót­stöðu­afl skilji sig frá sam­band­inu.“

Í dag er mér ljóst að vonin um umbætur á ASÍ er úti. Í forystu ASÍ getur ekki átt erindi nein manneskja sem vill af heilum hug berjast fyrir bættum kjörum almennings á Íslandi. Þær manneskjur verða að leita annað.

Mér er ekki gleði í huga, en ég fagna engu að síður tækifærinu til að halda áfram uppbyggingu á baráttu launafólks annars staðar. Ég býð öllum sem vilja sjá breytingar, umbætur og bætt kjör almennings á Íslandi að halda út í veröld nýrra möguleika, veröld vonar og veröld sigra.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: