Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna sendir þetta frá sér:
„Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna vill lýsa yfir fullum stuðningi við baráttu Samtaka leigjenda.
Ástandið á leigumarkaðnum er vægast sagt hræðilegt. Það er ekki of djúpt í árina tekið að segja að hann einkennist af stjórnleysi, kerfisbundinni fjárkúgun og misbeitingu á varnarlausum leigjendum, sem einhversstaðar þurfa höfði sínu að halla.
Þessu ástandi hefur verið mætt af ámælisverðu skeytingarleysi af hendi stjórnvalda og ekki nóg með það, heldur er það við þennan ógnarmarkað sem hlítir engri stjórn sem Hagstofan vill miða húsnæðislið vísitölunnar, sem nær augljóslega ekki nokkurri átt.
Það er vitaskuld algjörlega út í hött að lán heimilanna verði fyrir áhrifum á hækkun kaffibauna eða hveitis úti í heimi, eða því að skortur á húsnæði hleypi verði þess stöðugt upp, því ekkert af þessu er á ábyrgð neytenda heldur alfarið utan áhrifasviðs þeirra.
En fyrst að lán meirihluta heimilanna taka breytingum til samræmis við vísitölu neysluverðs, nær alltaf til hækkunar, þarf virkilega að vanda til verka.
Húsnæðisliðurinn hefur, þrátt fyrir langa baráttu fyrir afnámi hans, verið algjörlega ósnertanlegur og lotið lögmálum sem ekki einu sinni Hagstofan þóttist geta breytt. Það vekur því vægast sagt furðu að allt í einu geti starfsmenn Hagstofunnar breytt húsnæðisliðnum án þess að nokkur opinber eða fagleg umræða hafi farið fram um það. Þvert á móti hefur þessi mikilvæga ákvörðun verði tekin á ólýðræðislegan hátt í bak við luktar dyr og mörgum spurningum er ósvarað. Allt þetta ferli er vægast sagt sérstakt og nauðsynlegt að fá skýringar á því sem átt hefur sér stað á bakvið tjöldin.
En að niðurstaðan sem tekin var með þessum ólýðræðislega hætti, sé að miða húsnæðisliðinn við stjórnlausan leigumarkað sem lýtur engum lögmálum öðrum en græðgisvæðingar, nær ekki nokkurri átt og Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla þessum vinnubrögðum og niðurstöðu þeirra harðlega.
Hagsmunasamtök heimilanna lýsa fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur á því vaxtaofbeldi sem heimili landsins hafa verið beitt á undanförnum tveimur árum og ekki sér enn fyrir endann á.
Það er ekki hægt að bæta böl með því að búa til annað verra. Það er samt nákvæmlega það sem ríkisstjórnin hefur látið líðast að Seðlabankinn geri, án þess að grípa til nokkurra varna fyrir heimilin með neinum hætti.
Heimilin eru jafn varnarlaus gagnvart þessu og fórnarlamb vopnaðs ráns í húsasundi.
Þetta er rán og eignaupptaka á fjármunum heimilanna, sem engin hækkun á fasteignamati getur bætt upp, enda eykur hún ekki ráðstöfunarfé heimilanna á nokkurn hátt heldur aðeins kostnað þeirra.
Þetta ofbeldi verður að stöðva og það ber ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að gera án tafar áður en skaðinn verður meiri en þegar er orðið.
Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að vextir verði lækkaðir nú þegar, að minnsta kosti jafn mikið og verðbólga hefur lækkað frá því að hún náði hápunkti fyrir rúmu ári síðan.“