- Advertisement -

Grimmd auðvaldssamfélagsins

Vegna þessa glæpsamlega ástands fer risastór hluti ráðstöfunartekna láglaunafólks beint í vasann á einhverjum öðrum.

Sólveig Anna Jónsdóttir er í viðtali í nýjasta tölublaði blaðs Eflingar.

Hún segir að á tímum nýfrjálshyggjunnar hafi getan og leyfið til útópískrar hugsunar verið tekin af fólki. Það hafi átt að láta sig dreyma um þúsundkalla hér og þúsundkalla þar í stað þess að dreyma um grundvallarbreytingar á samfélaginu til að sleppa undan oki þeirra sem fara með völd.

„Það er einn merkilegasti árangur nýfrjálshyggjutímans að við lærðum að sætta okkur við að stéttasamvinna væri eina leiðin, að til þess að fá eitthvað þyrftum við að sýna undirgefni og algjöran vilja til stéttasamvinnu. Draumurinn um eitthvað stórt og merkilegt, um raunverulegt frelsi var tekinn í burtu.“

Hún segir skammarlegt að hugsa til að þess að sjálft verkamannabústaðakerfið hafi verið lagt af. Þar var á einu augabragði horfið frá þeirri hugsun að það væri eðlileg krafa að öllum væri tryggt húsnæði á viðráðanlegu verði.

„Ef við setjum húsnæðismálin, sem eru grundvallarmannréttindi, í hendurnar á markaðnum fáum við útkomuna sem við sjáum í dag. Fólk á hrakhólum, þúsundir búa í iðnaðarhúsnæði, þar af fjöldi barna sem hafa ekki einu sinni aðgang að hreinlætisaðstöðu, 900 manneskjur á biðlista eftir félagslegu húsnæði í borginni, þar af fjöldi einstæðra mæðra í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Vegna þessa glæpsamlega ástands fer risastór hluti ráðstöfunartekna láglaunafólks beint í vasann á einhverjum öðrum. Hér sjáum við grimmd auðvaldssamfélagsins með sem skýrustum hætti. Bara þetta dæmi sem snýr að húsnæðismálum, sýnir að ef við missum þessi grundvallarmál úr höndunum á okkur endum við á hrikalegum stað sem er mjög erfitt að komast af. Ef við leyfum því að gerast að fólk sem hefur sýnt og sannað að hagsmunir vinnuaflsins skipta það engu, að því er alveg sama hvort fólk sé í tveimur vinnum bara til að sjá fyrir sér og börnum sínum, fær áfram að hafa öll völd yfir lífi okkar veit ég ekki hvernig fer fyrir okkur. Þess vegna skiptir öllu máli að verkalýðshreyfingin og vinnuaflið standi föst fyrir. Tími þeirra sem hafa þessar mannfjandsamlegu hugmyndir um samfélag sem einhverskonar gróðastýrt fyrirtæki er liðinn. Við verðum að vera tilbúin til að leggja mjög mikið í sölurnar til að pólitísk og efnahagsleg forréttindastétt sem hugsar aðeins um hagsmuni þeirra ríku komist ekki upp með að hafa öll völd á landinu.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: