Greip fast í klof Alberts
Dr. Guðrún Jónsdóttir lýsir kynerðislegri áreitni í borgarstjórn.
Samfélag Dr. Guðrún Jónsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi, er í fínu viðtali í Fréttablaðinu í dag þar sem hún segir frá kynferðislegri áreitni í borgarstjórn Reykjavíkur. Hér er gripið niður í viðtalið á tveimur stöðum.
En hver var það sem beitti hana kynferðislegri áreitni?
„Það var Albert Guðmundsson. Ég fékk aldrei frið. Hann setti sig aldrei úr færi. Hann var oft að ganga á eftir mér. Þegar maður fór í kaffi eða mat á borgarstjórnarfundum, þá var hann á eftir manni. Hann var grípandi í brjóstin á mér eða um rassinn. Þetta var svo þrúgandi, það var alveg sama hvernig ég sneri mig út úr aðstæðum eða hvað ég sagði við hann. Ég bað hann um að hætta. Sagði: Þú skalt ekki halda að þetta sé eitthvað sem ég get hugsað mér að láta viðgangast. Það dugði aldrei neitt, hann hélt áfram. Hann settist oft við hliðina á mér við matarborð ef það var laust sæti. Hélt áfram að þreifa á lærunum á mér. Á endanum greip ég bara fast í klofið á honum og sagði: Það er best að ég taki upp þína siði. Þá verða það kaup kaups. Það dugði í þessu tilviki. Loksins hætti hann. En þetta var svo yfirgengilegt og fékk á mig.
Það var ekki einu sinni að hann færi leynt með þetta. Það gat frekar litið út eins og það væri eitthvert samband á milli okkar. Það fannst mér slæmt. Ég var svona frekar hlédræg manneskja. Mér fannst ekki gott að vera með upphrópanir og læti. Ég hélt að hann myndi hætta því það var alveg ljóst að þetta var etthvað sem ég vildi alls ekki. En hann lét ekki segjast þar til ég greip til þessa örþrifaráðs. Það er óviðunandi að þurfa að grípa til svona ráða.“
Ræddi hún við Albert um þetta eftir á? Sýndi hann iðrun?
„Nei, hann var salírólegur með þetta. Eins og þetta væri sjálfsagður hlutur. Eins og það væru engin landamæri. Eins og hann hefði vald til að meðhöndla þá í kringum hann eins og hann vildi. Framkoman lýsti virðingarleysi í garð fólks. Þegar maður er beittur kynferðislegri áreitni þá er maður sviptur öryggistilfinningu, sjálfsvirðingu og valdi yfir eigin persónu. Þetta er bara valdarán og lítillækkun.
Guðrún segir konum mikilvægt að taka sér aftur þetta vald sem þær hafi verið rændar með lítilsvirðingu og kynferðislegri áreitni.