- Advertisement -

Greiðslur ríkis til eldri borgara lægstar hér

Við þá breytingu voru 13.000 eldri borgarar strikaðir út úr almannatryggingum.

Björgvin Guðmundsson skrifar:


Palme, forsætisráðherra Svía og leiðtogi sænskra jafnaðarmanna, sagði að almannatryggingarnar ættu að vera fyrir alla, án tillits til efnahags. Þær ættu ekki að vera fátækraframfærsla. Nýsköpunarstjórnin, sem kom almannatryggingum á hér 1946, lýsti þessu sama yfir og sagði, að almannatryggingarnar ættu að vera fyrir alla án tillits til stéttar eða efnahags. Þetta var athyglisvert, þar eð Sjálfstæðisflokkurinn var aðili að stjórninni (veitti henni forstöðu) en ásamt honum voru Alþýðuflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn í stjórninni.
Þetta var á þennan hátt hér til 1.janúar 2017, allir eldri borgarar fengu lífeyri (grunnlífeyri) frá TR en 1. janúar 2017 varð breyting á. Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks felldi þá niður að allir eldri borgarar fengju grunnlífeyri eða einhvern ellilífeyri. Við þá breytingu voru 13.000 eldri borgarar strikaðir út úr almannatryggingum samkvæmt upplýsingum Hrafns Magnússonar. Þó höfðu þeir alltaf greitt til trygginganna, margir frá 16 ára aldri. Mér er til efs, að það standist að fella greiðslurnar niður.
Ég gerði samanburð á grunnlífeyri á Norðurlöndum og nokkrum öðrum löndum 2015 og þá kom þetta í ljós:
Grunnlífeyrir var 40 þús kr. á mánuði hér fyrir skatt en í Noregi, Svíþjóð og Danmörku þrisvar sinnum hærri. Grunnlífeyrir í Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi var einnig miklu hærri en hér. Athugun leiðir í ljós, að ríkið greiðir miklu hærra til eftirlauna aldraðra á hinum Norðurlöndunum en hér og hið sama gildir um OECD löndin í heild. Meðaltalsgreiðsla ríkisins sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu er talsvert hærri hjá OECD en hér. Þó er hagvöxtur meiri hér.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: