- Advertisement -

Grænlensk stjórnmál eru til vinstri

Gunnar Smári skrifar:

Inuit Ataqatigiit (Samfélag fólksins) er vinstrisinnaðri flokkur, til vinstri við Siumut (Framsókn), sem er sósíaldemókratískur flokkur í grunninn að norrænni fyrirmynd. Inuit Ataqatigiit er í bandalagi norrænna flokka með VG hér á Íslandi, Vinstri flokknum í Svíþjóð, Sósíalíska vinstri flokknum í Noregi og bæði Sósíalíska þjóðarflokknum og Enhedslisten í Danmörku. Siumut er hins vegar í norrænu bandalagi með verkamanna- og sósíalistaflokkunum og Samfylkingunni íslensku. Saman fengu þessir flokkar 2/3 hluta atkvæða eða 67,5% (voru með 55,2% í síðustu kosningum).

Grænlensk stjórnmál eru því vinstri stjórnmál. Næsti flokkur er Naleraq (Sjónarmið), sem er klofningsflokkur út úr Siumut, með 12,3%. Það eru því ekki nema rétt rúm 20% atkvæða eftir áður en kemur að hægrinu. Tveir slíkir flokkar náðu inn á þing Demókratar, sem starfar með miðjuflokkum í norrænu samstarfi (Framsókn, Miðflokkurinn, Viðreisn og Flokkur fólksins) en með Íhaldsflokknum og Radikale Venstre á danska þinginu. Atassut (Samstaða) er síðasti flokkurinn inn á þing, flokkur sem starfar með miðflokkunum í norrænu samstarfi og Venstre á danska þinginu.

Þrír stærstu flokkarnir eru með sjálfstæði á stefnuskrá sinni, flokkar með rétt tæplega 80% fylgi. Mið-hægrið vill ekki sjálfstæði heldur vinna áfram innan danska sambandsins.

Á Grænlandi eru flokkar frá sósíaldemókrötum og til vinstri með 80% fylgi en slíkir flokkar eru með 38% fylgi í Danmörku. Demókratar og Atassut eru með 16% fylgi en þeir flokkar sem þeir starfa með í Danmörku eru með 27%. Munurinn á stjórnmálum landanna er sá helstur að danski Þjóðarflokkurinn og nýja popúlíska hægrið á sér ekki systurflokka á Grænlandi, kannski vegna þess að vinstrið á Grænlandi er popúlískt í þeirri merkingu að það byggir á lýðhyggju en ekki elítustjórnmálum.

En þar fyrir utan eru allskyns mál sem hafa áhrif á grænlensk stjórnmál sem ekki er hægt að bera saman við stjórnmál annarra landa. Stjórnmál eru menningarlegt fyrirbrigði, eins og list og önnur menning. Við getum flokkað poppmúsík í flokka og borið saman tónlistarheim ólíkra landa en samt er það þannig að það sem er vinsælt í einu landi nær engum vinsældum í því næsta. Það er eitthvað sameiginlegt en það sem skiptir mestu máli er ósamanburðarhæft. Bubbi Morthens og Kim Larsen eru með um margt sambærilega stöðu í íslensku og dönsku tónlistarlífi en samanburðurinn nær ekki lengra, stenst bara í þessari stuttu setningu. Næsta setning er dæmd til að andmæla þeirri fyrri, tilgreina það sem er ólíkt með þessum tveimur köppum. Og þetta á líka við um pólitík, meira að segja hugmyndir um stéttaátök, fullveldi, frelsi og alþjóðlegt samstarf hafa ólíkan blæ og inntak eftir því hvaða menning glímir við þessi hugtök.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: