„Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar reit grein í Morgunblaðið í gær um orkuskort í landinu, sem þegar er farinn að bíta, og rakti hann helst til „orkuleka“ milli markaða stórnotenda og almennra notenda, sem nýta um 20% raforku í landinu. Hörður varaði við því að hann gæti komið harkalega niður á almenningi með orkuþurrð eða margfaldri hækkun á orkuverði,“ segir í leiðara Moggans.
Þar segir einnig; „Í blaðinu í dag lætur Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, í ljós rökstuddar efasemdir um nákvæmar ástæður orkuskortsins og minnir á að einokunaraðstaða Landsvirkjunar hafi sín áhrif. Hagvöxtur hafi svo sitt að segja um aukna eftirspurn, en hins vegar hafi aukinni orkunotkun ekki verið mætt með meiri orkuframleiðslu.
Það er vitaskuld mergurinn málsins, rót vandans.“
Höldum áfram að lesa leiðara Moggans:
„Það var því ekki lítið undrunarefni þegar orkuskorturinn var gerður opinber fyrir mánuði, að stjórnmálamenn létu margir sem hann kæmi þeim öldungis á óvart, þó að margoft hafi verið við því varað og um langt skeið að í óefni stefndi.
Værukærðin um það er í raun óskiljanleg. Öllum hefur mátt ljóst vera að fjölgun þjóðarinnar, mikill hagvöxtur, aukin orkunotkun, orkuskipti og öll önnur skilyrði leiddu til hins sama, að aukinnar orkuöflunar er þörf.“
Þarna er slegið nærri Alþingi. Eflaust er þetta hárrétt athugasemd.
„Það eru engar ýkjur að segja að sú orkunýting sé ein helsta forsenda þess velmegunarþjóðfélags, sem Íslendingum hefur auðnast að skapa í köldu og harðbýlu landi; forsenda hagvaxtar og hagsældar, fólksfjölgunar og lífskjara í fremstu röð þjóða heims.
Orkuöryggi er þjóðaröryggismál fyrir Íslendinga engu síður en aðrar þjóðir. Það er ein af frumskyldum stjórnvalda að sjá til þess að því sé ekki ógnað og enn frekar að það sé ekki vanrækt eins og nú blasir við að hefur gerst.
Fyrir því eru margvíslegar ástæður, en þar eru pólitísk mistök og tómlæti efst á blaði.“