Illt er að sjá ef gamalgrónir vinstrimenn ætla nú að taka við fyrrnefndu hlutverki bergþursanna.
Bjarni Harðarson, bókaútgefandi og fyrrum þingmaður Framsóknar, skrifar langa og kröftuga grein í Mogga dagsins. Hér er byrjað á að vitna í lok greinarinnar, þar segir:
„Það er sjaldnast af stjórnmálalegri hugsjón sem oligarkar og banksterar heimsins vilja afnema ríkisrekstur. Drifkraftur þeirrar baráttu er hið óskemmtilega græðgiseðli að sölsa undir sig sjálfan opinberar eigur. Alla jafna hefur fótgöngulið Sjálfstæðisflokksins verið lið hinna nytsömu sakleysingja í þeirri baráttu en nú er mörgu á haus snúið. Illt er að sjá ef gamalgrónir vinstrimenn ætla nú að taka við fyrrnefndu hlutverki bergþursanna sem kasta milli sín fjöregginu.“
Bjarni leggur baráttunni gegn orkupakkanum lið sitt. Hann byrjar grein sína svona:
„Stjórnmálamenn sem hampa þeirri miður göfugu hugsjón að græða á daginn en grilla á kvöldin hafa síðustu misserin eignast nytsama bandamenn í hugsjónafólki sem sér aðild Íslands að ESB sem langtímamarkmið.“
Hér er tekið eitt dæmi um hvaða hættumerki Bjarni sér:
„Eftir nýlegt viðtal við forstjóra Landsvirkjunar þar sem hann hvetur til samþykkis orkupakkans er engum blöðum um það að fletta hvað það er sem dregur vagninn í þessu görótta máli. Þar ræður vilji einkavæðingargæðinga sem sjá sér færi á að nota Evrópusambandstilskipanir til þess að sópa undir einkavæðingaráform orkufyrirtæki sem nú eru í þjóðareigu.“