Græða allir á ríkisábyrgðinni? Svarið er já. Svo er að skilja það sem Vilhjálmur Bjarnason skrifar í Moggann. Greinin er löng. Það markverðasta í henni er þetta:
„Það eru klisjur þeirra sem ekki þekkja til reksturs Icelandair og erfiðleika félagsins í Covid-faraldri að það eigi að ríkisvæða tapið en einkavæða hagnaðinn.
Á það skal minnst að íslenska ríkið hefur komið upp umfangsmiklu tryggingakerfi til atvinnuleysisbóta. Það er markmið að lágmarka það tjón sem verður af völdum Covid.
Með ríkisábyrgð á lánum og væntum jákvæðum árangri eru það ekki feitir kallar sem hljóta ávinninginn. Það verður hópur vinnandi fólks, sem greitt hefur í lífeyrissjóði. Ríkissjóður mun hafa ávinning af því með skattgreiðslum af lífeyrisbótum og skerðingum á bótum almannatrygginga.
Það verður einnig starfsfólk Icelandair, sem nýtur jákvæðs árangurs. Það verður ferðaþjónustan í heild, sem nýtur árangurs af leiðakerfi Icelandair, því það mun taka mjög skamman tíma að endurræsa markaðsstarf Icelandair.
Vert er að minnast orða Jónasar Haralz bankastjóra þegar illa gekk hjá Flugleiðum og hugmynd kom um að ríkisvæða Flugleiðir. „Þetta er það vitlausasta sem þið getið gert. Hvaða vanda haldið þið að það leysi að ríkið yfirtaki félagið? Til hvers haldið þið að það leiði?“
Að lokum má minna á að stór hluti af rekstrarforsendum Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar er tengiflug Icelandair. Slíkt tengiflug tekur mörg ár að byggja upp að nýju.“