- Advertisement -

„Gott og þarft framtak hjá Íslandsbanka“

…en hafði t.d. á sama tíma engan áhuga á því að verið var að reka Póstinn í þrot á hans vakt.

Þorsteinn Víglundsson skrifar:

Það er ansi merkilegt að fylgjast með þessari umræðu. Íslandsbanki setur fram skýra stefnu varðandi innkaup sín á þjónustu. Tvö málefni eru þar í forgrunni. Umhverfismál og jafnréttismál. Bankinn segist ætla að endurskoða pappírsnotkun sína og plastnotkun svo dæmi sé tekið og ætlar auk þess ekki að skipta við fyrirtæki þar sem kynjahalli er mikill. Sérstaklega er vakin athygli á ábyrgð fjölmiðla í þeim efnum og segist bankinn ætla að horfa til kynjajafnvægis í málefnum starfsmanna og viðmælenda fjölmiðla.

Fjölmiðlar geta ekki sjálfir krafist þess að vera undanskildir samfélagslegum kröfum sem þessum.

Lítil umræða eða gagnrýni hefur orðið á umhverfisvinkli þessa máls en jafnréttisvinkillinn virðist hafa ært þó nokkra óstöðuga. Kastljósþáttur gærkvöldsins er ágætis dæmi um það en auk þess hafa fjölmargir aðilar stigið fram og gagnrýnt bankann harðlega fyrir stefnu sína. Jafnvel talað um aðför að frjálsri fjölmiðlun. Formenn Sjálfstæðisflokks og Miðflokks hafa báðir gagnrýnt þetta harðlega. Fjármálaráðherra hefur gjarnan talað um að ráðherra eigi ekki að koma að rekstrarlegum ákvörðunum ríkisfyrirtækja. Hann var samt mjög hugsi yfir þessu og gagnrýndi bankann, sem er vissulega í eigu ríkisins, en hafði t.d. á sama tíma engan áhuga á því að verið var að reka Póstinn í þrot á hans vakt. Það var þá væntanlega rekstraleg ákvörðun en jafnréttismálin ekki, eða hvað?

Það er hins vegar mjög sérkennilegt að hlusta á þessa gagnrýni. Að fyrirtæki notist við gagnsæja og málefnalega mælikvarða um jafnrétti við ákvörðun um kaup á auglýsingum í fjölmiðlun er ekki atlaga að ritstjórnarlegu sjálfstæði þeirra. Aðeins verið að biðja um að gætt sé að jafnrétti. Fjölmörg fyrirtæki setja sér viðmið í stefnumörkun um samfélagslega ábyrgð. Þau geta snúið að umhverfismálum, ábyrgum innkaupum varðandi þætti eins og barnaþrælkun eða að bændur (t.d. í kaffirækt eða kakórækt) fái óásættanlega hlutdeild í verðmæti vöru vegna veikrar stöðu sinnar. Allt eru þetta talin góð og gild markmið en auðvitað hafa þau mikil áhrif á ýmis fyrirtæki sem ekki geta uppfyllt þessi skilyrði og verða því af viðskiptum.

Fjölmiðlar geta ekki sjálfir krafist þess að vera undanskildir samfélagslegum kröfum sem þessum. Það hefur ekkert með ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðlanna að gera en allt með samfélagslega ábyrgð þeirra. Það er rétt að hafa í huga að FKA hefur árum saman barist fyrir auknu jafnvægi milli kynja þegar kemur að viðmælendum fjölmiðla. RÚV hefur tekið þessa áskorun alvarlega og á síðasta ári var heildarhlutfallið jafnt í fyrsta sinn þótt staðan væri talsvert verri þegar eingöngu var horft til frétta, þá er hlutfallið 70/30 körlum í vil.

Þetta er mjög gott og þarft framtak hjá Íslandsbanka. Viðbrögðin sýna hins vegar að fleiri fyrirtæki mættu fylgja fordæmi þeirra. Við eigum greinilega enn langt í land!


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: