- Advertisement -

Gott að vera vel á verði

Neytendur ættu að vera vel á verði vegna breytinga á lögum um virðisaukaskatt og vörugjöld sem tóku gildi um áramót. Nauðsynlegt er að sýna söluaðilum aðhald svo breytingarnar skili sér eins og þær ættu að gera.

Ætla má að breytingar á  virðisaukaskatti ættu nú þegar að hafa haft áhrif á verðlag á vörum og þjónustu en afnám almennra vörugjalda ætti að fara að hafa áhrif á næstu vikum.

Á heimasíðu ASÍ má finna ýmis dæmi um áhrif breytinganna á verðlag og eru þar reiknivélar til þess að hjálpa neytendum að áætla áhrif breytinganna á verð á ýmsum vörum og þjónustu. Allflestar vörur og þjónusta bera almennan virðisaukaskatt sem lækkaði um áramót úr 25,5% í 24%. Verð lækkar um 1,2% vegna þessara breytinga. Hér má nefna vörur eins og föt og skó, lyf, húsgögn, húsbúnað, raftæki, áfengi, tóbak, snyrtivörur, tryggingar og þjónustu ýmsa þjónustu.

Á móti þessu hækkaði neðra þrep virðisaukaskattsins úr 7% í 11% og hækkar verðlag vara í þessu þrepi um 3,7% vegna þessa. Helstu liðir í þessu skattþrepi eru matur og óáfengar drykkjarvörur, veitinga- og gistiþjónusta, bleiur, bækur, dagblöð, tímarit og geisladiskar, heitt vatn og raforka til húshitunar, afnotagjöld útvarps- og sjónvarpsstöðva og aðgangur að vegamannvirkjum (Hvalfjarðargöng).

Þá eru vörugjöld á sykur og sætar matvörur (sykurskattur) voru feld niður um ármót.  Áhrif breytinganna á verð einstakra vara ræðst af því hversu mikinn sykur/sætuefni þær innihalda en vörugjald er að jafnaði 210 krónur á hvert kíló sykurs sem vara inniheldur. Um er að ræða vörur eins og sykur, gosdrykki, ís, sultur, sætabrauð, sælgæti, sætar mjólkurvörur o.fl. Virðisaukaskattur af þessum vörum hækkar jafnframt úr 7% í 11%.

Almenn vörugjöld sem lögð voru á stærri raf- og heimilistæki, ýmsar byggingavörur og bílavarahluti voru jafnframt feld niður að fullu um áramót auk þess sem virðisaukaskattur á þessum vöruflokkum lækkar úr 25,5% í 24%. Vörugjöld voru lögð á ýmist við innflutning eða hjá framleiðanda og voru hlutfallsleg. Hæst vörugjöld, 25% báru raftæki eins og sjónvörp, hljómflutningstæki og myndbandstæki en samspil niðurfellingar á vörugjöldum og lækkunar á virðisaukaskatti ætti að skila um 21% lækkun á þessum vörum. Ýmis stærri heimilistæki ss. þvottavélar, þurrkarar, eldavélar, kæliskápar og uppþvottavélar báru 20% vörugjöld og ættu breytingarnar að leiða til um 18% verðlækkunar á þessum vörum. Þá báru ýmsar byggingavörur eins og hreinlætistæki, gólfefni og flísar 15% vörugjöld sem og ýmsir bílavarahlutir og ætti verð á þessum vörum að lækka um 14% í kjölfar breytinganna.

Sjá nánar á heimasíðu ASÍ


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: