„Nýlega hélt atvinnuveganefnd opinn fund um óunninn fisk sem fluttur er út í gámum. Allur fiskur á að fara á markað. Allar vinnslur hafa þá tækifæri á jafnræðisgrundvelli til að kaupa hráefni og fiskurinn fer í útflutning, hálf- eða fullunnin — mun verðmætari vara en óunninn fiskur í gámum. Þeim útflutningi yrði nánast sjálfhætt.“
Það var Álfheiður Eymarsdóttir Pírati sem sagði þetta í þingræðu í dag. Og hún bætti heldur betur í:
„Nú stendur til að kvótasetja grásleppu, algerlega að ástæðulausu því að núverandi fyrirkomulag hefur gefist mjög vel. Öll félög smábátasjómanna hafa mótmælt þessu. Hafnarnes VER þurfti að segja upp starfsfólki um daginn vegna óskynsamlegra fyrirætlana stjórnvalda um veiðar á sæbjúgum. Við verðum að vanda betur til verka. Flest málefni sjávarútvegsins koma of seint fram þannig að flýta þarf þinglegri meðferð. Illa rýndum tillögum, götóttum og handónýtum frumvörpum er þrýst í gegn á handahlaupum. Ekkert ráðrúm er gefið fyrir raunverulegar umbætur í fiskveiðistjórnun. Við verðum að tryggja eðlilega fiskveiðistjórnun þar sem nýliðun í greininni er möguleg, veiðileyfin eru tímabundin en ekki varanleg og jafnræði er tryggt. Við höfum fengið ákúrur frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna vegna fiskveiðistjórnunar. Okkur ber siðferðisleg skylda til að bregðast við þeim. Verulegra umbóta er þörf. Strandveiðitímabilið þarf að lengja í alla vega sex mánuði og rýmka þar verulega reglur. Skilyrði, reglur og gjaldtaka eru of þung fyrir smábátaútgerðina.“
Hún sagði að endingu: „Í stuttu máli: Allan fisk á markað, tímabundnar veiðiheimildir en ekki varanlegar, frjálsar handfæraveiðar — einungis þannig tryggjum við jafnræði, eðlilega samkeppnisstöðu og nýliðun í greininni sem annars hættir við stöðnun. Breytum kvótakerfinu, breytum fiskveiðistjórnun hægt en örugglega, án nokkurrar kollsteypu, þjóðinni allri til heilla. Þetta er mikilvægt auðlindamál.“