Árni Gunnarsson skrifar:
Benedikt Gröndal, alþingismaður og fyrrum formaður Alþýðuflokksins og utanríkisráðherra, gaf mér eitt sinn bréf, sem Egill Jónasson, skáldsnillingur á Húsavík, hafði sent honum. Egill gerir þar athugasemdir við lág og léleg ellilaun.
Bréfið er skrifað 1. maí 1976, eða fyrir tæpri hálfri öld. Bréfið er á þessa leið: Við síðustu útborun ellilauna kemur í ljós, að hjón fá níuþúsundum minna á mánuði, en tveir einstaklingar.
Af því tilefni varð eftirfarandi staka til:
Framtíðin virðist á hangandi hári,
hjónin gömlu öryggi svift.
Hundraðþúsund og átta á ári,
okkur það kostar að vera gift.
Í þessum málaflokki er fátt nýtt undir sólinni.