- Advertisement -

Gömlu olíufélögn voru í tröllahöndum

Neytendur „Fréttir af því að bandaríska lágvöruverðs-verslanakeðjan Costco hafi áhuga á því að nema land á Íslandi hafa vakið mikla athygli og meira að segja komið nokkru róti á huga margra. Megin heimspekin að baki Costco minnir mjög á þá sem upphaflega var grundvöllur kaupfélaganna. Viðskiptavinirnir gerast meðlimir og geta þar með keypt flestallt sem þá vanhagar um á góðu verði og þess vegna í stórum einingum. Costco kappkostar að vera með allt sem neytendur þurfa á að halda, allt frá mat- og nýlenduvöru, lyfjum og áfengi til hverskonar verkfæra og raftækja og rekstrarvara fyrir bifreiðar, þar á meðal er eldsneyti,“ segir á heimasíðu FÍB.

„Fyrirætlanir um að opna eldsneytissölu eru nokkurt fagnaðarefni. En það er þó ekki þar með sagt að þær gangi eftir. Það er nefnilega ekki auðvelt fyrir nýjan aðila að hasla sér völl eins og reynslan af Atlantsollíu sýnir. Á fleti fyrir eru fyrirtæki sem halda fast á sínu og munu áreiðanlega ekki gefa neitt eftir til að auðvelda enn nýjum aðila að hasla sér völl á þessum fákeppnismarkaði. Gömlu olíufélögin eru heimarík fáokunarfyrirtæki sem hafa áratugum saman skipt eldsneytismarkaðinum upp á milli sín og þau ganga hönd í hönd með hagsmunaaðilum og stjórnmálamönnum sem gæta þess að bátnum sé ekki ruggað um of.

Gömlu olíufélögin eru sterk Það eru þau enn þótt þau hafi um tíma lent í tröllahöndum sem mergsugu þau gersamlega og settu í þrot. En í stað þess að setja þau formlega í þrot og gera þau upp, fékk almenningur að að kosta endurreisn þeirra að mestu, m.a. gegn um sjóði í eigu almenns launafólks. Skuldir voru felldar niður og reksturinn hélt áfram eftir hrun eins og ekkert hefði komið upp á.

Í fréttaviðtali um hugsanlega eldsneytisstöð Costco í Reykjavík sagði Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi og formaður skipulagsráðs Reykjavíkur þetta: „Við teljum að það sé kappnóg af bensínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu þannig að við höfum tekið okkur smá tíma í það að fá betri upplýsingar um það hvað þeir kalla fjölorkustöð.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Af orðum Hjálmars má nokkuð ráða það að hann er ekkert sérstaklega uppveðraður og telur að það séu þó einskonar málsbætur að á þessari nýju stöð muni auk jarðefnaeldsneytis einnig fást rafmagn á farartæki og kannski líka metangas. Út af fyrir sig er það rétt hjá Hjálmari að það skortir ekki bensínstöðvar á höfuðborgarsvæðinu og í því efni er hann greinilega sammála FÍB.

Hann kýs hins vegar að líta fram hjá því að það skortir mjög á virka samkeppni inn á þennan fákeppnismarkað sem eldsneytismarkaðurinn er. Því mætti hann og aðrir borgarfulltrúar minnast þess að þeir eru kjörnir fulltrúar borgarbúa allra en ekki bara sumra. Því ber þeim að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna, m.a. með aðgerðum sem líklegar eru til þess að auka samkeppni á eldsneytismarkaðinum þar sem virk samkeppni leiðir til hagstæðara verðs til neytenda. Úthlutun lóðar til nýs söluaðila eldsneytis væri ágætt skref í þessa átt.

Það er bæði flókið og dýrt að opna bensínstöð á nýjum stað og mun meira mál en t.d. að opna verslun eða sjoppu. Bensínstöð þarf að uppfylla mjög strangar kröfur um öryggi og mengunarvarnir og því má segja að slík lóðarúthlutun sé í raun ákveðin gæði og þeim gæðum hafa borgaryfirvöld og stjórnir sveitarfélaga hvers tíma úthlutað olíufélögunum eftir einhverskonar þóknunar-forgangsröð litaðri af tengslum olíufélaganna þriggja við stjórnmálaflokka. Vilja borgarfulltrúar almennt feta þá braut áfram?

Eðli málsins samkvæmt ættu úthlutanir bensínstöðvalóða að vera í stöðugri endurskoðun. FÍB telur að það er skynsamlegt að bensínstöðvar séu ekki óhóflega margar miðað við fólksfjölda og umferð og eins og nú háttar má segja að þær séu það á höfuðborgarsvæðinu. Félagið hefur því áður lagt til við borgaryfirvöld og gerir það hér með enn og aftur, að þau hugleiði það af alvöru að úthluta bensínstöðvalóðum til tiltekins árafjölda og endurúthluta svo þessu gæðum m.a. til þess að auðvelda nýjum aðilum innkomu á markaðinn. Þannig myndu borgaryfirvöld stuðla að því að losa um bönd fáokunarinnar og um leið að gegna skyldum sínum gagnvart borgurunum sem neytendum.“

Heimasíða FÍB.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: