Mannlíf

Golf fyrir alla: Las Ramblas er ekki fyrir pirraða

By Miðjan

November 21, 2019

Vetur á Spáni: Las Ramblas er sérstakur golfvöllur. Skógarvöllur sem refsar drjúgt. Þeir golfarar sem pirrast í mótlæti ættu ekki að spila Las Ramblas. Við hin getum notið þess að spila völlinn.

Las Ramblas er 5.673 meta langur af gulu teigunum, 5.215 af bláum og 4.733 af þeim rauðu. Völlurinn er par 72.

Við gerðumst félagar á Las Ramblas til sex mánaða. Áskriftin kostar 1.050 evrur fyrir konur og 1.200 evrur fyrir karla. Sem gerir 313 þúsund fyrir okkur bæði. Við borgum síðan 13 evrur að auki fyrir hvern hring, eða rétt um átján hundruð krónur.

Við fáum afslætti á tvo aðra velli; Villamartin og La Finca. Við höfum farið á La Finca og þurftum þá að borga rúmar fjögur þúsund fyrir okkur bæði. Þar er verið að gera við nokkra teiga og eru gerðir „gerviteigar“ sem er mikill mínus. Alla vega fyrir hágæða völl.

1. Við. 2. Fjórða braut sem er sérlega snúin par 5. Fókið á myndinni er að bíða þess að geta slegið á svæði nokkrum tugum neðar. Þaðan þarf svo að slá á grínið sem er nokkru hærra en millilendingin. 3. Grínið á fyrstu braut. Það er gott að komast þangað. Skemmtileg braut. Lendingin af teig er þröng og brautin liggur upp á móti.

Aftur á Las Ramblas. Norðurlandabúar eru í miklum meirihluta sem spila völlinn. Síðast lékum við með Finna sem var erfitt að eiga í samræðum við. Þar sem hann talaði bara finnsku. Þar áður voru það reyndar eldri hjón frá Þýskalandi. Aðalmyndin með þessum skrifum er af bílnum þeirra og þar sést hversu nýtin þau eru. Golfsettin eru ekki nýmóðins. Og ekki bíllinn heldur. Pústkerfið hefur átt betri daga.

Las Ramblas er skógarvöllur, sem fyrr sagði, og að auki eru margar brautir sérstakar. Hitt er svo annað að brautirnar eru fjölbreyttar. Engar tvær eins.

Þau ykkar sem viljið, og hafið ekki, spila Las Ramblas. Munið eftir æðruleysinu. Við höfum kynnst fyrrum atvinnumanni með Bristol Rovers. Sá er frá Cardiff í Wales og mikill aðdáandi Einars Arons landsliðsfyrirliða. Fyrsta hringinn sem þessi fíni íþróttamaður lék á Las Ramblas tapaði hann 21 bolta. Sem hlýtur að vera met.

Við fimmta teig er maður sem selur notaða bolta. Við höfum ekki haft ástæðu til að kaupa af honum. Er enn á fyrsta skammti.

Góða skemmtun.