Góðar fréttir fyrir kvótabraskara
„Finnst einhverjum öðrum en ríkisstjórninni þetta vera gott kerfi og réttlátt?“
Kvótinn verður aukinn í þorski, ýsu og ufsa. Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hefur skoðun á úthlutun kvótans.
„Góðar fréttir og sérlega góðar fyrir kvótahafa. Nú geta þeir veitt meira fyrir lágt veiðigjald eða leigt frá sér fyrir tífalt veiðigjald. Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir kvótalausu útgerðirnar. Hvað væru góðar fréttir fyrir kvótalausu útgerðirnar? Jú ef þessi viðbót upp á rúm 60 þúsund tonn færi í leigupott en yrði ekki skipt á milli þeirra sem fyrir hafa fengið kvóta.
Útboð á viðbótarkvóta sem ríkið fyrir hönd þjóðarinnar stæði að, eins og Samfylkingin hefur lagt til með frumvarpi á Alþingi. Málið hefur þrisvar verið lagt fram og jafn oft strandað í nefnd.
En viðbótarkvótinn er sannarlega sárabót fyrir stórútgerðina sem fékk ekki lækkun á veiðigjaldinu frá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur eins og til stóð. En hinir minni þurfa að treysta á leigu frá þeim stóru á uppsprengdu verði sem rennur beint í vasa útgerðarinnar en ekki til velferðarkerfisins eins og það auðvitað ætti að gera. Finnst einhverjum öðrum en ríkisstjórninni þetta vera gott kerfi og réttlátt?“