Gluggagægir í Valhöll
Til skemmtunar er tilvalið að kíkja á gluggann í Valhöll. Þar sem titringurinn eykst sífellt. Fylgi flokksins er í sögulegri lægð. En hvers vegna?
Best er að njóta tilsagnar Styrmis Gunnarssonar. Hann þekkir innviði afar vel.
„Það er fróðlegt að fylgjast með umræðum meðal sjálfstæðismanna um ástæður fylgistaps flokksins.
Sumir skýra það á allt annan veg en að það leiði af gerðum eða aðgerðarleysi forystusveitar og þingflokks. Þeir telja, að ástæðan fyrir fylgistapinu sé gagnrýni og þó sérstaklega gagnrýni á orkupakkann.
Þar af leiðandi séu það gagnrýnendur og andstæðingar orkupakkans innan flokksins, sem beri ábyrgð á fylgistapinu.
Þetta eru varasamar kenningar í lýðræðislegum stjórnmálaflokki vegna þess að í slíkum skýringum felst krafa um einsleitni í skoðunum. Og í raun krafa um að frjáls skoðanaskipti fari ekki fram fyrir opnum tjöldum.
Er það ekki einmitt aðalsmerki lýðræðislegra stjórnarhátta, að skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi ráði ríkjum?
Hvað eru þeir að segja, sem halda slíkum kenningum fram? Að bezt fari á því að mismunandi skoðanir séu ekki til umræðu?!
Líklegra er að það séu einmitt opnar umræður, sem haldi kjósendum við þann flokk, sem þeir hafa lengi fylgt, en sjá ýmislegt gagnrýnisvert við.
En tal af þessu tagi ýtir á djúpa skoðanakönnun um ástæður fylgistaps og þá er sjálfsagt að ein spurning í slíkri könnun snúizt um það, hvort gagnrýni innan flokks leiði til fylgistaps.“
Mikið á það fólk gott sem er nákvæmlega sama um stöðu valdaflokksins við Háaleitisbraut.