- Advertisement -

Glötuð kosningabarátta

Viðhorf Ég skil ekki hvers vegna Framsóknarmenn töldu best að tefla flugvellinum fram í kosningabaráttunni. Trúðu þeir þeim mönnum sem harðast berjast fyrir að ekki verði hróflað við Reykjavíkurflugvelli? Langtum flestir vita að flugvöllurinn er þar sem hann er og hann verður þar sem hann er, um einhvern tíma. Það er bara ekki komið að því að deila um hvort flugvellinum verði lokað og þá hvenær og hvernig.

Mig grunar að Guðni Ágústsson, sem hefur verið kallaður stórmeistari í stjórnmálum, hafi skynjað þegar á reyndi að þetta var vonlaust. Hann, sveitamaðurinn, myndi sópa til sín atkvæðum með það helsta mál að halda í flugvöllinn. Nokkir hafa sagt mér að eiginleg ástæða þess að Guðni hafi hætt við hafi verið sú að hann hafi krafist þess að mágkona hans, Vigdís Hauksdóttir, yrði ráðherra. Þessu hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson neitað þegar ég hef spurt hann.

Framsókn hlýtur að vera með einhverja verstu kosningabaráttu sem þekkist. Fyrst var það Óskar Bergsson, svo Guðni og nú er frambjóðandi sem enginn veit hvort er Kópavogsbúi eða Reykvíkingur. Framsóknarmenn vita kannski ekki að það á að halda um skaftið á sverðinu, ekki eggið.

Vandi Framsóknar er mikill, en vandi Sjálfstæðisflokksins er ekki síðri. Kjörtímabilið 2006 til 2010 voru nokkrir meirihlutar í Reykjavík. Sjálfstæðisflokkurinn bauð upp á þrjá borgarstjóra á því kjörtímabili; Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, Ólaf F. Magnússon og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Eftir að Davíð Oddsson hætti á árinu 1991, gegndu tveir Sjálfstæðismenn embætti borgarstjóra; Árni Sigfússon og Markús Örn Antonsson. Á tveimur árum eða þremur, hefur Sjálfstæðisflokkurinn því boðið upp á fimm borgarstjóra. Ekki merki um stöðugleika.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sjálfstæðisflokkurinn var með nokkuð flotta borgarfulltrúa, fólk með sérstöðu. Ég á við Gísla Martein Baldursson og Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur. Þau stungu í stúf. Höfðu ekki sömu áhyggjur af því hvort ein gata eða tvær væru þrengri en áður.

Morgunblaðið reynir sitt og rekur einstaklega auma kosningabaráttu. Gamaldags. Enda eru unga fólkið farið, farið annað. Ungt fólk hefur búið, til að mynda í Kaupmannahöfn, eða verið í erlendum borgum. Hvar þykir sérstakt að umferð sé þung og hæg á mestu álagstímum? Hvergi nema í Hádegismóum.

Fari fyrir Sjálfstæðisflokknum og útlit er fyrir geta þeir sjálfum sér um kennt. Búnir að hrekja burt það fólk sem hefði hugsanlega getið snúið þróuninni við og fært flokkinn til nútímans.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: