Sighvatur Björgvinsson, fyrrum þingmaður og ráðherra Alþýðuflokks, skrifar skemmtilega grein í Mogga dagsins. Þar rifjar hann upp þegar fólk úr Alþýðuflokki og Alþýðuflokki sátu við um stofnun Samfylkingarinnar. Sighvatur skrifar:
„Svona stóðu málin þegar við Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþýðubandalagsins, studd vinum okkar og samstarfsmönnum í Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi og með liðstyrk sumra þingmanna Kvennalistans tókum ákvörðun um að hefja jafnaðarstefnuna til vegs og virðingar á Íslandi þegar helsta deilumál heillar aldar hafði horfið á einni nóttu. Þetta tókst okkur að miklu leyti en þó ekki eins miklu og við hefðum viljað. Ástæða: Nokkrir framámenn í Alþýðubandalaginu neituðu að vera með. Mér eru í fersku minni ástæðurnar. Meginástæðan var heiftúðug andstaða þeirra við NATÓ. Ekki kæmi til greina af þeirra hálfu að ganga til samkomulags um flokksstofnun, sem ekki hafnaði afdráttarlaust aðild Íslands að NATÓ. Hin ástæðan er mér líka í fersku minni. Ekki kæmi til greina að ganga í flokk með jafnaðarmönnum, sem áður höfðu gengið til samstarfs við íhaldið um myndun ríkisstjórna. Slíkt mætti ekki gerast og þá með aðild Alþýðubandalagsfólks. Því yrði að stofna nýjan flokk Samfylkingunni til höfuðs. Vinstri græna.“
Þetta er merkilegt. Greinilega hefur fólk breyst síðan þá. Sighvatur heldur áfram:
Hindrunum rutt
„Að baki okkar eru fimm ár. Formaður Vinstri grænna situr og hefur tryggilega setið öll þau ár mitt í hópi forystumanna NATÓ. Þar leggur hún mikla áherslu á að Svíar og Finnar, vinaþjóðir Íslands, láti af hlutleysi sínu og gangi „til okkar í NATÓ“. Gleðibrosandi, kát, og fagnandi með félögunum í NATÓ. Og með félögunum við ríkisstjórnarborðið. Þar sem formaður Vinstri grænna er að hefja sjötta árið í samstarfi við íhaldið þar sem hún gegnir hlutverki forsætisráðherra. Leiðir stjórnina! Slíku forystuhlutverki í íhaldsstjórn á Íslandi hefur enginn jafnaðarmannaleiðtogi gegnt síðan árið 1947 þegar mynduð var ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar, sem sat fáein ár við mikla andstöðu forvera Alþýðubandalagsins. Og hvernig skyldi hljóðið nú vera í Steingrími og Ögmundi? Ég veit hvernig hljóðið er í Ögmundi en ekki Steingrími. Enda er þetta það, sem hann hugsaði til handa sjálfum sér áður en Ingibjörg Sólrún varð fyrri til.
Svo spurt sé að loknum þessum lestri er þá ekki að tímabært af mér, gömlum krata, að segja líkt og Katrín segir við vinaþjóðir okkar sem sem hún vill deila með verunni í NATÓ: „Velkomin til okkar, Katrín!“ Hindrununum hefur öllum verið rutt úr vegi. Það gerðir þú. Velkomin sértu!“
Greinin Sighvatar er lengri. Fyrirsögnin er Miðjunnar.