„Mig langar að koma hér upp undir störfum þingsins til að ræða sveitarfélagið mitt, Reykjanesbæ,“ sagði Guðný Birna Guðmundsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í gær.
„Fjárhagsstaða sveitarfélagsins er heilbrigð en í drögum að ársreikningi 2022 má sjá jákvæða stöðu. Helmingur sveitarfélaga hefur þó fengið aðvörun frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga vegna reksturs þeirra. Það vakti upp gamlar áhyggjur þar sem Reykjanesbær stóð frammi fyrir þessum aðstæðum árið 2014 þegar við vorum eitt skuldsettasta sveitarfélag Íslands. Það að hafa náð þessu fjórða stærsta sveitarfélagi til betri vegar og rekstrar jaðrar við kraftaverk. Það er mjög erfitt fyrir sveitarfélag að ná sér upp úr rekstrarvanda og vera í þenslu á sama tíma. Við höfum búið við þær aðstæður ár eftir ár að sjá 6–8% fjölgun íbúa á ári en nú undanfarna 12 mánuði er stökkið í fjölgun íbúa 9,6%. Frá janúar til apríl á þessu ári hefur fjölgunin verið 524 einstaklingar,“ sagði Guðný Birna.
„Fjölgun íbúa er góð að vissu marki en að sama skapi umfangsmikil og flókin. Fjöldi fólks á flótta stefnir í að verða yfir 1.000 í sveitarfélaginu í sumar samkvæmt tölum frá hæstvirtum félags- og vinnumarkaðsráðherra. Þegar Reykjanesbær hefur sagt: Nú verður að leita til annarra sveitarfélaga, er bent á neyð í málaflokknum og tregðu sumra sveitarfélaga að taka við verkefninu. Það er ósanngjarnt og óskynsamlegt að setja slíka þenslu á sveitarfélag sem er í stökkbreytingarvexti fyrir. Ég gladdist yfir því að Garðabær skrifaði undir samning um móttöku flóttafólks í gær og hvet önnur sveitarfélög til að gera slíkt hið sama til að við getum öll sinnt þessu mikilvæga samfélagslega verkefni. Við þurfum að ráða fram úr þessu saman,“ sagði hún.