Fjármagnseigendur hafa fellt gengið um að minnsta kosti 12% undanfarnar þrjár vikur.
Þór Saari:
Algjört grundvallaratriði áður en farið er af stað með svona gríðarlegan stuðning við fyrirtækin er að það verði fyrst kannað hvað þau hafa verið að greiða eigendum sínum í arð undanfarin tvö ár. Þeim arði ætti að skila til baka, alla vega að hluta, og á móti þeim fjármunum kæmi framlag frá ríkinu, króna á móti krónu sem hlutafé.
Eins þarf að tryggja að ekki verði áframhald á þeim fjármagnsflótta úr landi sem þegar er byrjaður, en fjármagnseigendur hafa fellt gengið um að minnsta kosti 12% undanfarnar þrjár vikur. Gjaldeyrishöft og það strax.
Frestun á skattgreiðslum er skynsamleg sem og aukning barnabóta og flýtun á framkvæmdum.
Endurgreiðsla virðisaukaskatts á framkvæmdum er óþörf þar sem samdrátturinn hefur ekki áhrif í þeim geira, alla vega ekki strax.
Styrkurinn sem boðaður er til ferðaþjónustunnar, 4.000 kr. gjafabréf, er hlægilegur. Miklu frekar ætti að styðja við aðalfyrirtækið í þessum geira og það sem er þjóðhagslega mikilvægast, Flugleiðir, hinum fyrirtækjunum má sinna eftir tvo til þrjá mánuði, það er þeim sem eru þá ekki farin á hausinn. Það gengur bara ekki að moka fé í viðskiptamódel fyrirtækja sem þola ekki tveggja til þriggja mánaða samdrátt í tekjum. Kaupþingslánið fræga sem tæmdi gjaldeyrisvarasjóð þjóðarinnar lak úr landi og „týndist“. Þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar benda til þess að sá atburður endurtaki sig. Ástæðan er einföld og vel þekkt. Vanhæf ríkisstjórn.