Grein Börnin okkar horfa á og hlusta á ensku í margfalt meiri mæli en við eldri gerðum í okkar æsku. Það mun verða verðugt verkefni að viðhalda íslenskunni. Verja hana og þroska. Til þess höfum við lítt gert enn sem komið er.
Ég las grein í Morgunblaðinu, man ekki lengur hvað maðurinn heitir sem talað var við, en hann taldi dauða íslenskunnar augljósan. Ég er honum ekki sammála. Ég held, og vona, að því unga fólk sem nú kýs jafnvel að taka ensku frekar en íslensku, snúist hugur þegar þeirra verður ábyrgðin á að viðhalda og verja íslenskuna.
Við hikum hins vegar ekki við að kosta ómældum peningum á hverju ári til að viðhalda króunni.
Í gærkvöld horfði ég á þátt Gísla Margteins í almannasjónvarpinu. Gísli Marteinn hikar ekki við að nota ensku í þætti sínum. Hann „streymar“ efni, sýnir „læv“ og fannst þetta „normal“ og fleiri dæmi man ég ekki. En fleiri voru þau.
(Sá að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var meðal gesta Gísla Marteins, en Bjarni svaraði ekki, ekki með einu orði, ósk minn um að verða gestur í þættinum Sprengisandur í fyrramálð. Ekki var annað að sjá en hann hafi verið í essinu sinu í almannnasjónvarpinu. Það var gott að sjá).
Bjarni Benediktsson er meðal þeirra sem þykir sjálfsagt að við kostum kannski 200 milljörðum króna á hverju ári, með einum eða öðrum hætti einsog maðurinn sagði, til að viðhalda krónunni. En hann, og fleiri, telja hins vegar krónurnar, þegar kemur að vegferð íslenskunnar.
Svo mikla trú hef ég á ungu fólki að ég efast ekki, ekki eitt augnablik, um að það fólk mun viðhalda íslenskunni, og eflaust betur almannasjónvarpið gerði í gærkvöld.
Sigurjón Magnús Egilsson.