Líklegast er að kvótasetningin komi þá verst niður á brothættustu byggðunum, þar sem nú er tvísýnt um að hægt sé að halda úti lágmarks löndunarþjónustu.
Sigurjón Þórðarson skrifar:
Umsögm um lög um stjórn fiskveiðar (kvótasetning grásleppu).
Það er ljóst að frumvarpið um að kvótasetja grásleppu gengur þvert gegn markmiðum 1. gr. laga um stjórn fiskveiða; að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu og stuðla að hagkvæmri nýtingu hrognkelsa.
I. Byggðasjónarmið
Kvótasetningu fisktegundarinnar girðir fyrir nýliðun í greininni og mun auka á samþjöppun veiðiheimilda, en hvort tveggja leiðir augljóslega til veikari stöðu sjávarþorpa. Reynslan af því að setja tegundir inn í aflamarkskerfið hefur hingað til verið samþjöppun veiðiheimilda og hækkað verulega þröskuldinn fyrir nýliða að hefja útgerð. Fastlega má búast við því að kvótasetningin á grásleppu hafi nákvæmlega sömu áhrif og fyrri aðgerðir stjórnvalda í sömu veru.
Líklegast er að kvótasetningin komi þá verst niður á brothættustu byggðunum, þar sem nú er tvísýnt um að hægt sé að halda úti lágmarks löndunarþjónustu. Reynt er að koma á móts við framangreind samþjöppunaráhrif með því að setja ákveðið hámark á hvað hver útgerð getur haft yfir miklum veiðiheimildum að ráða, en það er 2% samkvæmt frumvarpinu. Reynslan af slíkum hámörkum hvað varðar sambærileg ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða, um aðrar fisktegundir hefur hingað til ekki verið fylgt eftir, af íslenskum stjórnvöldum.
Áður en lengra er haldið áfram með frumvarpið er nauðsynlegt að meta neikvæða byggðaþætti frumvarpsins og síðan gera tillögur um raunverulegar mótvægisaðgerðir.
II. Þörf á kvótasetningu út frá nýtingu og vernd
Nýlegar grunnrannsóknir Biopol, varpa skýru ljósi á eftirfarandi þætti:
- 1. Sókn í grásleppu hefur farið minnkandi á síðustu fjórum áratugum.
- 2. Merkingatilraunir Biopol gefa til kynna að Hafró ofmeti verulega veiðihlutfall grásleppu, en reiknilíkan stofnunarinnar gerir ráð fyrir að um önnur hver kynþroska grásleppa veiðist í net.
- 3. Grásleppan kemur aðeins einu sinni til hrygningar á æviskeiði sínu og drepst að lokinni hrygningu.
Allir framangreindir þættir gefa til kynna að óhætt sé að auka verulega veiðar á grásleppu og að stjórnvöld ættu miklu frekar að leita leiða til þess stuðla að auknum veiðum, í stað þess að rígbinda veiðar við umdeilda ráðgjöf Hafró.
Núverandi veiðiráðgjöf Hafró byggir eingöngu á því hvað veiðist af grásleppu í stofnmælingu botnfiska (togararalli). Það er vægast sagt bratt að beita mælingum sem gerðar eru við botninn til að meta stofnstærð hrognkelsis sem heldur sig í yfirborði sjávar utan hrygningartímans.
Í ljósi þess hve Hafró telur að framangreind mæling sé háð mikilli óvissu er stofnmat frá árinu áður látið hafa 30% vægi á móti 70% vægi stofnmats yfirstandandi árs, í útreikningum á veiðiráðgjöf Hafró. Aðferðafræðilega er þetta galið þ.e. að leiðrétta ráðgjöf óvissu í mælingu með ársgamalli mælingu sem hlýtur að vera háð jafn mikill óvissu, en vitað er að hefur nákvæmlega ekkert með stofnstærð yfirstandandi árs að gera. Þetta er álíka eins og ef veðurfræðingi dytti í hug að leiðrétta niðurstöður mælingar bilaðs hitamælis á lofthita dagsins, með mælingum með sama bilaða hitamælinum frá því í fyrra!
Umrædd aðferðarfræði hefur eðlilega verið gagnrýnd af fiskifræðingum og ekki síður að stofnunin skuli ekki þróa og taka tillit til nýrra rannsókna á sviði grásleppurannsókna m.a. úr; alþjóðlegum uppsjávarrannsóknum á uppsjávarfiski í úthafinu, fyrrgreindum merkingartilraunum Biopol, afla á sóknareiningu og netaralli Hafrannsóknarstofnunar sjálfrar.
Það sem kemur fram í frumvarpinu um að fyrirsjáanleiki veiða muni aukast með lögfestingu frumvarpsins á ekki við rök að styðjast, þar sem ætlunin er að festa í sessi óvissa veiðiráðgjöf, án þess að taka með í reikninginn nýlegar grunnrannsóknir sem gefa til kynna að auka megi veiðar. Óvissan opinberaðist sl. vor en þá kom berlega í ljós að grásleppugengd var miklu meiri en „spáð“ var fyrir um í ráðgjöfinni.
III. Óstjórnin vorið 2020
Núverandi sjávarútvegsráðherra hefur ítrekað lýst yfir þeim vilja sínum að kvótasetja grásleppuna, án þess að færa fyrir því veigamikil rök. Eftir að ljóst var að ekki var vilji fyrir kvótasetningu á grásleppunni á síðasta þingi, þá var hrundið af stað atburðarás sl. vor, sem skóp óánægju með núverandi sóknarstýringu á meðal sjómanna.
Gefinn var út heimild til að veiða grásleppu í 44 daga á tímabilinu frá 10. mars til 20 júní sl. Fljótlega á vertíðinni var ljóst að aflinn yrði mun meiri en það sem Hafró ráðlagði, þar sem aflabrögð voru afar góð hjá þeim bátum sem hófu fyrstir veiðar. Eðlilegast hefði verið að endurskoða ráðgjöfina í ljósi þess að hún er bæði háð mikilli óvissu eins og að framan greinir auk þess sem hún stangaðist á við niðurstöður netaralls Hafró og afla á sóknareiningu. Enginn vilji var hjá ráðherra að taka umrædda ráðgjöf til endurskoðunar, þrátt fyrir að alvanalegt sé að gefa út viðbótarkvóta ef athuganir gefa til kynna að meira sé á ferðinni af uppsjávarfiski s.s. loðnu en upphaflegar mælingar gáfu til kynna. Ekki dugði það til endurskoðunar, þó svo að sýnt hefði verið fram á að Hafró hefði beinlínis gefið sér forsendur í útreikningum sínum.
Fyrir ábyrg stjórnvöld sem eiga að hafa jafnræði við úrlausn mála að leiðarljósi þá hefði úrlausn veiðistjórnarinnar sl. vor átt að vera að fækka veiðidögum hjá öllum bátum þegar ljóst var að afli myndi fara fram úr ráðgjöfinni.
Það var ekki gert heldur fengu grásleppusjómenn mismunandi marga daga í sinn hlut, þar sem veiðarnar voru stöðvaðar nánast fyrirvaralaust í lok apríl sl. eða um það bil sem veiðar voru að hefjast fyrir vestan og austan land.
IV. Tækifæri til að gera betur
Stjórnvöld hafa tækifæri til þess að gera grásleppuveiðarnar arðvænlegri innan þess fiskveiðistjórnunarkerfis sem verið hefur verið við lýði á grásleppu og hefur hér að framan verið rökstutt að óhætt sé að auka sóknina og lengja veiðitímabil verulega. Lenging veiðitímabils hvers báts gæfi sjómönnum kost á að draga úthaldið í land ef spáð er illviðri.
Það blasir sömuleiðis við að hægt er að gefa útgerðum grásleppubáta auknar heimildir til þess að landa meiri meðafla og fénýta hann, í stað þess að andvirði aflans renni til opinberra sjóða eins og nú er. Í núverandi fyrirkomulagi á byggðapottum eru mörg dæmi um að verið sé að færa kvótahæstu fyrirtækjum landsins auknar heimildir í gegnum Byggðastofnun og almenna byggðakvótakerfið – Miklu nær væri að nota þær heimildir fyrir meðafla grásleppubáta.
Ef stjórnvöld vilja stuðla að nýliðun og tryggja byggðafestu ásamt því að auka útflutningstekjur þjóðarbúsins er um að gera að grípa grásleppuna á meðan hún gefst og tryggja góða afkomu grásleppuútgerða – það verður ekki gert með þessu frumvarpi.
Sigurjón Þórðarson.
Höfundur starfar sem framkvæmdastjóri, en er menntaður á sviði líffræði og opinberrar stjórnsýslu.