Guðmundur Þ. Ragnarsson, formaður VM, félasg vélstjóra og málmtæknimanna, vill að Lífeyrissjóðurinn Gildi selji allan sinn hlut í N1.
„Ósmekkleg launahækkun forstjóra N1 má ekki standa. Mér, sem svo mörgum öðrum, er misboðið. Ég sit í stjórn Lífeyrissjóðsins Gildis og ætla að nota aðstöðu mína sem stjórnarmaður til að krefjast þess að sjóðurinn sendi sterk skilaboð inn á hlutabréfamarkaðinn, með því að selja hlutabréf sjóðsins í N1.
Ég mun leggja fram formlega tillögu um það á næsta stjórnarfundi Gildis, sem er fimmtudaginn 22. mars n.k.
Það gengur ekki lengur að gera siða- og starfskjarareglur sem enginn fer eftir. Við eigum ekki að biðja þá sem hlut eiga að máli, um að laga eða bæta. Ákvörðunin er að baki og stjórn N1 verður að axla sína ábyrgð. Nú er kominn tími til að lífeyrissjóðirnir, sem eru meðal helstu eigenda, láti til sín taka.
Í starfskjarastefnu N1 hf. segir, að kjör forstjóra skuli vera samkeppnishæf og taka mið af hæfni, ábyrgð og umfangi starfans.
Ég set stórt spurningarmerki við hæfi forstjórans og stjórnar félagsins ef þau eru ekki hæf til að lesa inn í ástandið í samfélaginu. Hvernig fer þetta fólk að því að leggja mat á markaðinn sem fyrirtækið starfar á, ef þau ná ekki að vera í sambandi við samfélagið sem þau búa í.
Mat á hæfi hlýtur að eiga virka í báðar áttir. Laun geti þá líka lækkað ef hæfnin er ekki til staðar. Mat mitt er að lækka eigi verulega laun forstjórans sem og laun stjórnar N1.
Er þetta kannski dæmi um fákeppnisumhverfið sem svona fyrirtæki starfar í á Íslandi. Það þarf litla hæfni í sjálftöku á fákeppnismarkaði?
Í samskipta og siðareglum Gildis 2010 kom ég að eftirfarandi málsgrein.
„Sjóðurinn fjárfestir í samfélagslega ábyrgum fyrirtækjum sem fylgja lögum og reglum samfélagsins og viðurkenndum viðmiðunum um góða stjórnarhætti og viðskiptasiðferði. Sjóðurinn fjárfestir ekki í fyrirtækjum sem ofbjóða siðferðisvitund almennings með ósanngjarnri framkomu gagnvart starfsfólki s.s. varðandi kjör og stjórnunaraðferðir eða með óhófi í launamálum stjórnenda sem og öðrum rekstrarþáttum. Stjórn tekur afstöðu til slíkra mála sem upp koma og ákveður hvort selja eigi hlut sjóðsins í ljósi þeirra viðbragða sem athugasemdir við óeðlilega starfshætti fá.“
Þó samskipta og siðareglur Gildis hafi tekið breytingum frá 2010, tel ég að andinn sé sá sami, þó orðalagið hafi breyst.
Ég tel að þetta fyrirtæki hafi ofboðið siðferðisvitund almennings.
Nú er nóg komið, við höfum allt of lengi veifað gulu spjöldunum. Nú er komið að því að setja rauða spjaldið á loft.“
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.