- Advertisement -

Gildandi samningur við þjóðkirkjuna stenst ekki lög um op­in­ber fjár­mál

Fjórir milljarðar á ári fyrir kirkjujarðir?

Björn Leví Ginnarsson:
Þó að það sé vissu­lega stjórn­valda að fara eft­ir lög­um um op­in­ber fjár­mál, hefði það ekki verið heiðarlegt af þjóðkirkj­unni að benda á að það er ólög­legt að gera samn­ing til lengri tíma en fimm ára?

„Árið 1997 var gerður samn­ing­ur milli rík­is­ins og ís­lensku þjóðkirkj­unn­ar um yf­ir­töku rík­is­ins á kirkjujörðum í staðinn fyr­ir að greiða laun presta. Tvennt er mjög ámæl­is­vert við samn­ing­inn. Í fyrsta lagi er hann ótíma­bund­inn og í öðru lagi er ríkið skuld­bundið til þess að greiða laun um 90 presta og 14 annarra starfs­manna bisk­up­sembætt­is­ins, jafn­vel þótt all­ir skráðu sig úr kirkj­unni,“ þannig hefst grein sem Björn Leví Gunnarsson skrifar í Mogga dagsins.

„Frá því að samn­ing­ur­inn var gerður hef­ur skráðum meðlim­um í þjóðkirkj­unni fækkað um 15 þúsund en Íslend­ing­um fjölgað um rúm­lega 100 þúsund. Miðað við kirkjuj­arðasam­komu­lagið hefði það átt að þýða að þeim stöðugild­um sem ríkið greiðir fyr­ir fækki en þegar viðbót­ar­sam­komu­lag var gert við kirkj­una, í des­em­ber 2019, kom fram að þess­ar greiðslur hefðu í raun­inni ekk­ert breyst þrátt fyr­ir fækk­un fé­lags­manna í þjóðkirkj­unni. Nú­ver­andi sam­komu­lag ger­ir ráð fyr­ir launa- og verðtryggðri upp­hæð.

Árið 2015 voru samþykkt ný lög um op­in­ber fjár­mál sem flækja þetta mál mjög mikið. En í þess­um nýju lög­um seg­ir að ekki sé heim­ilt að gera samn­inga um fram­kvæmd­ir, rekst­ur eða önn­ur af­mörkuð verk­efni til lengri tíma en fimm ára. Sér­staka und­anþágu má veita frá því skil­yrði ef það þarf að ráðast í stór­ar og kostnaðarsam­ar fram­kvæmd­ir og þarf slík und­anþága að vera rök­studd.

Er í lagi að nota skatt­fé svona?

Þetta þýðir að nýja viðbót­ar­sam­komu­lagið, sem á að gilda í 15 ár, stenst ekki lög um op­in­ber fjár­mál. Gamla kirkjuj­arðasam­komu­lagið, sem er ótíma­bundið, ger­ir það ekki held­ur. Miðað við gild­andi lög hlýt­ur það þá að vera skylda rík­is­ins að fella þessa samn­inga úr gildi og gera nýja samn­inga ef þarf. Eng­inn áhugi virðist vera fyr­ir því hins veg­ar, enda eru stjórn­völd til­tölu­lega ný­bú­in að gera þetta viðbót­ar­sam­komu­lag sem stríðir gegn lög­um um op­in­ber fjár­mál.

Það er því ágætt að hafa það í huga þegar fólk hugs­ar nú til jóla og þeirr­ar hátíðar sem nokk­urn veg­inn öll trú­ar­brögð hafa eignað sér á einn eða ann­an hátt, hversu vel það sam­ræm­ist lífs­skoðunum þjóðkirkj­unn­ar að gera svona sam­komu­lag. Þó að það sé vissu­lega stjórn­valda að fara eft­ir lög­um um op­in­ber fjár­mál, hefði það ekki verið heiðarlegt af þjóðkirkj­unni að benda á að það er ólög­legt að gera samn­ing til lengri tíma en fimm ára? Hefði kirkj­an ekki átt að benda einnig á að það þurfi að skil­greina um­fang og gæði þeirr­ar starf­semi sem samn­ing­ur­inn tek­ur til?

Um hátíðirn­ar, þegar farið verður að pre­dika um fórn­ir fyr­ir synd­ir manna, um kær­leik­ann og ljósið sem fjár­magnað er með ólög­leg­um samn­ingi um óskil­greind störf þjóðkirkj­unn­ar, er gott að muna að siðferðisboðskap­ur­inn kost­ar fjóra millj­arða á ári ofan á hefðbund­in sókn­ar­gjöld.

Er í lagi að nota skatt­fé svona, bara af því að mál­efnið er gott, eða er mál­efnið í al­vör­unni gott þegar það er styrkt svona?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: