Gilda landslög ekki um þingmenn og ráðherra?
Valdið er í vörn. Með mútum og blekkingum.
Björn Leví skrifar:
Maður verður að spyrja sig, ef ráðherrar og þingmenn þurfa ekki að fara eftir lögum, af hverju þurfa allir aðrir að gera það?
Auðvitað verður það að vera þannig að æðstu ráðamenn verða að fara eftir lögum. Annað er einfaldlega svindl. Það merkilega við þetta er að það er þó nokkuð algengt að lög eru notuð sem rökstuðningur fyrir sjálfum sér. Þannig er orðræðan oft um breytingar á stjórnarskránni til dæmis. Það má ekki kollvarpa neinu sko.
Þetta, eins og svo margt annað er það sem er að. Þetta verður að laga. Hvernig, þegar við virðumst alltaf enda með það sama hvernig sem kosið er? Ef þú platar mig einu sinni, þá átt þú að skammast þín. Ef þú platar mig tvisvar, þá er skömminni skilað. Hvað segir það um lýðræðið okkar? Erum við föst í einhvers konar Stokkhólms-heilkenni, dæmd til þess að þola það sama aftur og aftur og þurfa að vera þakklát fyrir það?
Í þessu umhverfi þrífast lýðskrumarar sem ala á ótta til þess að deila og drottna. Þeir treysta á gullfiskaminni og heilkennið og snúa öllu upp í andhverfu sína. Gerendur verða þolendur og þolendur gerendur. Þeir sem slá upp vörnum eru að ráðast á, þeir eru vandamálið. Strákurinn í nýju fötum keisarans hefði aldrei gerst á Íslandi. Það hefði verið þaggað niður í honum. Hann sviptur sjálfræði og lagður inn á geðdeild.
Það er ekki allt neikvætt hins vegar. Valdið er í vörn. Svona slær það í örvæntingu sinni til baka, með því að reyna að draga alla niður á sama tíma. Með ósvífni og samtryggingu. Með mútum og blekkingum. Þetta er svaðið sem við þurfum að vaða í gegnum til þess að knésetja valdið án þess að láta það draga okkur niður í svaðið á sama tíma. Það er gert svona, með því að sýna það svart á hvítu að valdið svindlar.