Greinar

Gífurlegar launahækkanir þingmanna

-  en engin hækkun lífeyris aldraðra og öryrkja.

By Ritstjórn

December 18, 2018

Björgvin Guðmundsson.

Björgvin Guðmundsson skrifar: Árið er senn á enda. Alþingismönnum hefur tekist enn eitt árið að starfa allt árið án þess að hækka lífeyri aldraðra og öryrkja um eina krónu. Lægsti lífeyrir dugar ekki til framfærslu. Þeir hafa hins vegar verið duglegri síðustu ár að hækka eigin laun og styrki til stjórnmálaflokkanna. Næsta ár á lífeyrir að hækka nákvæmlega eins og verðbólgan: Raunhækkun 0%.

Kjararáð hækkaði laun alþingismanna þrisvar sinnum á einu ári 2015 til 2016. Þingfararkaup hefur hækkað um tæplega 70%. Á kjördag 2016 hækkaði Kjararáð þingfararkaup alþingismanna um tæp 45 prósent, um 338.254 krónur á mánuði.

Mánaðarlaun alþingismanna eru eftir það 1.101.194 krónur á mánuði. Í nóvember 2015 tók Kjararáð ákvörðun um að hækka laun skjólstæðinga sinna afturvirkt, frá og með 1. mars 2015. Þingfararkaup hækkaði þá um 9,3% og fór úr 651.446 krónum í 712 þúsund krónur.

Alþingismenn felldu þá afturvirkar hækkanir til aldraðra og öryrkja! Þingfararkaupið hækkaði svo aftur frá og með 1. júní það ár um 7,15% og fór í 762.940 krónur. Með 45% hækkuninni 2016 hækkaði kaupið um 338.254 kr og fór í 1,1 milljón. Alþingismenn passa vel upp á eigin kjör. Valdið liggur hjá þinginu ef þingmenn taka höndum saman geta þeir bætt kjör lægst launuðu aldraðra og öryrkja. En það vantar viljann.