- Advertisement -

„Giftingarskatturinn“ leggst á öryrkja

Er ekki kominn tími til að hætta þessu fjárhagslega ofbeldi.

„Á sama tíma og við heyrum um launahækkanir upp á 370.000 kr. á mánuði, það ofan á 2,5 millj. kr. mánaðarlaun og einnig eingreiðslu upp á 3 millj. kr. til sama aðila, er fólk sem þarf að lifa á rúmlega 200.000 kr. á mánuði í almannatryggingakerfinu að verða fyrir skerðingu upp á 68.000 kr. á mánuði vegna maka eða bara vegna þess að barn þess verður 18 ára gamalt,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins.

„Svo er það giftingarskatturinn. Hjón höfðu samband við mig um daginn, bæði öryrkjar, og spurðu: Hvað skeður ef við giftum okkur? Hvað skeður ef þau taka sig til og gifta sig? Ég sagði þeim að brúðkaupsgjöfin frá Tryggingastofnun ríkisins í formi skerðingar yrði upp á 146.000 kr., eftir skatt nærri 94.000 kr.

Hvað á einstætt foreldri, öryrki, með barn að gera þegar barnið verður 18 ára? Á það að henda því út? Á það að skrá það annars staðar? Hvað á það að gera þegar það missir 68.000 kr., 47.000 kr. eftir skatt, af tekjum sínum? Ef við heimfærum þetta yfir á ráðherra, laun hans, þýðir það að þegar barnið hans verður 18 ára missir hann 600.000 kr. Er það eðlilegt? Eða meðallaunamaður með 700.000 kr. í tekjur, þegar barnið hans verður 18 ára missir hann 200.000 kr. Er ekki kominn tími til að hætta þessu fjárhagslega ofbeldi, hæstvirtur félags- og barnamálaráðherra?“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ásmundur Einar Daðason sagði:

„Það er auðvitað þannig í almannatryggingakerfinu, og það er ekki þessi ríkisstjórn sem kom því formi á, að tekið hefur verið mið af tekjum maka í ákveðnum bótaflokkum. Menn eru að velta fyrir sér þegar við erum með almannafé, erum að greiða til almannatrygginga, til þeirra sem sannarlega þurfa á því að halda, að meira fjármagn geti farið inn á heimili þar sem tekjur eru ekki eins háar. Það er grunnhugsunin á bak við þetta. Hvort hugsanlegar heildartekjur heimilis þyrftu að hækka er auðvitað þessi pólitíska spurning og er eitt af því sem við vorum að glíma við í vinnu sem fjallaði um endurskoðun almannatrygginga. Ég veit að hv. þingmaður þekkir þá vinnu vegna þess að hann átti sæti í þeim starfshópi. Það er verkefni sem við þurfum að ráðast í. Ég er ekki talsmaður þess að almannatryggingakerfið taki ekkert mið af tekjum maka og heimilis, en það er spurning hvar mörkin eru.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: