- Advertisement -

Getur Bjarni ráðið lífeyrissjóði?

„Telur fjármála- og efnahagsráðherra að launakjör forstjóra þeirra fyrirtækja sem LSR á verulegan hlut í geti skapað vandamál í kjaraviðræðum sem munu eiga sér stað á næstunni? Ef svo er, mun ráðherra beita sér fyrir því að fulltrúar hans í stjórn LSR geri athugasemdir við fyrrgreind launakjör og knýi á um að launin verði lækkuð?“

Þannig spyr Þorteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra. Bjarni mun svara skriflega.

En spurningarnar eru fleiri, sú hér að ofan er í raun sú fjórða og síðasta. Fyrsta spurningin er þessi: „Hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið markað sér eigendastefnu vegna hlutabréfaeignar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) í fyrirtækjum á markaði? Ef svo er, hefur sú eigendastefna verið birt og þá hvar? Ef ekki, hyggst fjármála- og efnahagsráðherra beita sér fyrir gerð og birtingu eigendastefnu?“

Næst spyr Þorsteinn hvort LSR hafi krafist stjórnarsetu í fyrirtækjum sem hann á verulegan hlut í, t.d. í N1, HB Granda, Högum og fleiri fyrirtækjum? Ef ekki, hefur LSR leitað eftir samkomulagi við aðra lífeyrissjóði um sameiginlega fulltrúa í stjórnum félaga á markaði í krafti hlutafjáreignar.

Og að endingu er það þessi: „Hefur LSR gert athugasemdir á aðalfundum eða hluthafafundum við há laun stjórnenda í þeim fyrirtækjum sem sjóðurinn á hlut í?“

Þetta eru spennandi spurningar og nú er að bíða og sjá hvað Bjarni hefur gert og kannski líka hvað hann getur gert, vilja hann á annað borð hafa afskipti af stjórnun Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

 

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: