- Advertisement -

Getum mótað mannúðlegra samfélag

„Vinnum gegn því að hinir ríkustu verði ríkari og vinnum gegn fátækt. Ég trúi því að það sé hægt og í dag fagna ég baráttunni, því að með samstöðunni getum við mótað mannúðlegra samfélag. Lifi byltingin.“

Sanna Magdalena Mörtudóttir:

„Gleðilegan alþjóðlegan baráttudag verkalýðsins!

Sigrar verkalýðsbaráttunnar hafa skilað okkur miklu sem við teljum eðlileg og sjálfsögð réttindi í dag, líkt og átta stunda vinnudag og réttinn til þess að taka sumarleyfi. Margt hefur áunnist en það er margt sem er eftir.

Ég tel það líka vera sjálfsögð réttindi að búa við efnahagslegt réttlæti, þar sem tekjur duga til að lifa mannsæmandi lífi, hvort sem tekjurnar eru laun, lífeyrir eða önnur innkoma.

Það eiga líka að vera sjálfsögð réttindi að lifa við efnahagslegt öryggi þar sem þú nærist út mánuðinn, bæði líkamlega, þar sem peningurinn dugar út mánuðinn fyrir mat og andlega þar sem þú hefur tíma aflögu til að sinna því sem þú vilt sinna og hefur tíma til að taka þátt í mótun samfélagsins. Þar sem þú hefur tíma til að hvílast og njóta og þarft ekki að vera í vinnu númer tvö til að leitast við að eiga nægan pening út mánuðinn. 

Það eiga líka að vera sjálfsögð réttindi að börn séu áhyggjulaus í leik og námi í skóla og geti þar tekið fullan þátt án þess að þurfa að hafa áhyggjur af afleiðingum fátæktar og hvernig slíkt getur skert möguleika þeirra á að taka fullan þátt í skólasamfélaginu.

Í svo ríku þjóðfélagi sem Ísland er tel ég að við þurfum líka að gæta að réttindum þeirra sem banka hér upp á dyrnar okkar, í leit að öruggara samfélagi, eftir að hafa flúið hörmulegar aðstæður í sínu heimalandi. Ég tel að þeir einstaklingar eigi að mæta skilningi og samþykki í stað þess að vera útskúfaðir og stillt upp sem ástæðu þess að hér á landi búi innfæddir Íslendingar við fátækt. 

Við eigum ekki að þurfa að velja, hvort að við sem ríkt samfélag, tökum á móti fleiri einstaklingum sem sækja um alþjóðlega vernd eða hvort að grunnupphæð örorkulífeyris eða ellilífeyris hækki, við eigum að geta gert bæði. Fjármagnið er til staðar en því miður er misskiptingin og óréttlætið sem því fylgir líka til staðar. Það er sennilega draumsýn auðvaldsins að hinir allra verr settu deili innbyrðis svo að við missum sjónar á því hvað það er sem við eigum raunverulega að beina spjótum okkar að; græðgi kapítalista sem sölsa undir sig sífellt meira af auð samfélagsins. Stöndum saman, jöfnum kjörin og búum til samfélag fyrir alla, þar sem ójöfnuður er út úr sögunni.

Vinnum gegn því að hinir ríkustu verði ríkari og vinnum gegn fátækt. Ég trúi því að það sé hægt og í dag fagna ég baráttunni, því að með samstöðunni getum við mótað mannúðlegra samfélag. Lifi byltingin.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: