Helga Vala Helgadóttir.

Fréttir

Geta þau sinnt störfum sínum?

By Miðjan

December 04, 2018

Helga Vala Helgadóttir flutti ræðu á Alþingi í dag. Klausturshópurinn var henni hugleikinn.

„Eiga þingmennirnir Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson að segja sig frá þingmennsku? Ég vil frekar spyrja: Geta þau sinnt störfum sínum? Þeim ber að sækja þingfundi og nefndarfundi. Þeim ber að rækja eftirlitshlutverk sitt gagnvart ráðherrum landsins. Þeim ber að vanda til verka við lagasetningu og setja sig inn í mál, hlusta á þá gesti sem mæta fyrir nefndir og eiga í samstarfi við aðra þingmen og ráðherra.“

Hvernig tala þau um mig?

Helga Vala hélt áfram: „Hópur þingmanna, þó aðallega kvenna, mátti sæta grófu níði, aðdróttunum, röngum sakargiftum og vanvirðandi hegðun af hálfu þessara einstaklinga, með beinum orðum þeirra eða aðgerðaleysi vegna nærveru þeirra. Athugið að við höfum bara fengið að heyra ummæli þeirra gagnvart opinberum persónum en ekki öðrum og vitum því ekki hvernig þau kusu að ræða um annað fólk, t.d. starfsfólk þingsins sem þarf í störfum sínum að þola návist þessara einstaklinga. Tölvan bilar, þingmál þarf að útbúa, upplýsingar þarf að veita — margt af þessu fólki hefur síðustu daga spurt sig og okkur: Hvernig tala þau um mig?“

Þarf ekki að svara níðingunum

Við skulum einnig vera meðvituð um það að sumt af því sem sagt var hefur ekki verið birt vegna þess hversu ósæmilegt það þótti. Ekkert þeirra getur beint fyrirspurn að hæstvirtum menntamálaráðherra, enda tel ég hana ekki þurfa að svara níðingum sem að henni vógu með svívirðilegum hætti. Þingkonan sem mátti þola hvort tveggja rangar sakargiftir og vanvirðandi ummæli um sig á ekki að þurfa að þola nokkur einustu samskipti við þetta fólk. Þá eru ótaldir þeir gestir sem stöðu sinnar vegna mæta fyrir þingnefndir. Þeir eiga heldur ekki að þurfa að þola návist þeirra.

Þess vegna er þetta spurningin, herra forseti, sem þingmennirnir þurfa að svara: Geta þau sinnt starfi sínu?“