Stjórnmál

Helgi Hrafn: Get ekki annað en baunað á Sjálfstæðisflokkinn

By Miðjan

April 10, 2021

„Nú get ég ekki annað en baunað aðeins á Sjálfstæðisflokkinn, sem heldur áfram að gaspra um frelsi hverja einustu kosningabaráttu,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati, þegar hann mælti fyrir frumvarpi sínu um að heimila heimabruggun.

„Hann má eiga það að hann stendur vissulega fyrir alls konar viðskiptafrelsi, þótt eitthvað grynnki nú á kapítalismanum þegar kemur að kvótakerfinu af einhverjum ástæðum. En þegar kemur að einstaklingsfrelsi verð ég var við mjög skýrt áhugaleysi. Málin snúast oft um hvort eitthvað megi selja eða hafa viðskipti með eða hvort eitthvað eigi að skattleggja og hversu hátt það er skattlagt,“ sagði Helgi Hrafn og hélt áfram:

„Hér erum við að tala um frelsi einstaklingsins til þess að gera eitthvað sem varðar þann einstakling sjálfan; fólk að brugga heima hjá sér, ekki til að afhenda öðrum, hvað þá fólki undir lögaldri, ekki til að selja það, reyndar ekki einu sinni að eima það.“

Augnabliki síðar sagði Helgi Hrafn:

„Ég tel það nefnilega vera þannig á Íslandi að það hefur í sjálfu sér aldrei verið neinn brjálæðislegur áhugi á einstaklingsfrelsi á Íslandi. Einstaklingsfrelsi á Íslandi sýnist mér hafa mestmegnis snúist um að geta búið langt frá öðru fólki og ráðið yfir sjálfum sér, en ekki þannig að reglurnar sjálfar séu sérstaklega framsæknar. Það er ekkert sérstaklega mikill áhugi á því á Íslandi almennt.“