Hér er fréttaskýring sem birtist í Mannlífi snemma árs 2008. Kristján Þorvaldsson er höfundur greinarinnar.
Múslímar á Íslandi eru ekki áberandi hópur. Engu að síður hafa málefni þeirra farið nokkuð hátt að undanförnu í kjölfar aukins þunga í umræðunni um innflytjendamál. Þannig hefur það líka verið í nágrannalöndunum þar sem umræða um innflytjendur hefur verið sjóðheit og hatrömm, ekki síst eftir skopteikningamálið fræga, þar sem múslímar víða um heim sniðgengu danskar vörur eftir að dagblaðið Jótlandspósturinn birti skopteikningar af Múhameð spámanni.
Talið er að múslímar á Íslandi séu jafnvel hátt í 1000, en 371 félagsmaður er í Félagi íslenskra múslíma, samkvæmt tölum Hagstofunnar fyrir árið 2007. Flestir þeirra eru úr Reykjavík og nágrannabyggðum og nokkrir eru af íslenskum uppruna.
Salmann Tamini tölvunarfræðingur er formaður félagsins. Ýmislegt hefur breyst frá því hann fluttist til Íslands árið 1972. Hann lauk menntaskólanámi í fæðingarstað sínum, Jerúsalem 1971, og stefndi að námi í læknisfræði í Bandaríkjunum í kjölfarið þar sem ekki var möguleiki á langskólanámi í Palestínu vegna hernáms Ísraelsmanna. Tilviljanir réðu því að hann fluttist til Íslands, kynntist íslenskri konu og stofnaði hér fjölskyldu og lauk tölvunarfræðinámi við Háskóla Íslands. Hann sér ekki eftir því og hefur aldrei farið til Bandaríkjanna eins og hann stefndi að. „Ég á líklega aldrei eftir að fara þangað,“ segir Salmann. Hann eignaðist tvö börn með fyrri konu sinni og tvö með núverandi konu sinni, Ingibjörgu Sigurjónsdóttur, en hún átti eitt barn fyrir. Barnabörnin eru orðin átta.
Varla er hægt að segja að múslímasamfélag hafi verið til staðar á Íslandi þegar Salmann kom hingað til lands. Hann leggur hins vegar áherslu á múslímar geti iðkað sína trú hvar sem er og hvenær sem er en auðvitað væri betra að hér væru starfandi fræðimenn á þessu sviði, líkt og prestarnir í kirkjunni. Þá hefur verið keppikefli hjá íslenskum múslímum að fá að reisa mosku en málið hefur þvælst fyrir yfirvöldum í ríflega sjö ár.
Félag múslíma hefur engu að síður aðstöðu í Ármúlanum þar sem félagsmenn koma saman til formlegra og óformlegra athafna. Þá er einn Íslendingur búinn að vera um árabil í Sádi-Arabíu að nema fræði íslams, og sumir sjá hann fyrir sér sem safnaðarleiðtoga og eru bundnar vonir við að hann komi til Íslands að námi loknu og starfi hér. Þetta er langt nám og verðandi leiðtoga er m.a. gert að læra arabísku.
Í miðstöðinni í Ármúla er alltaf opið hús á kvöldin og þangað koma yfirleitt um 10 til 15 manns biðja kvöldbænar saman en múslímar biðjast fyrir fimm sinnum á dag. Í hádeginu á föstudögum mæta allt upp í 50 manns og biðjast fyrir saman. Múslímar hafa ekki sinn heilaga dag, eins og t.d. gyðingar, og ein bænastund er ekki mikilvægari en önnur, en það er litið á það sem skyldu karlmanna að mæta í mosku á föstudögum, hittast og biðjast fyrir og þá er vel mætt í Ármúlann.
Fá ekki lóð fyrir mosku
Salmann og aðrir múslímar á Íslandi, sem blaðamaður Mannlífs ræddi við, hafa skynjað bæði jákvæða og neikvæða þróun á undanförnum árum hvað þeirra mál varðar. Þeim hefur vissulega fjölgað og þeim Íslendingum hefur einnig fjölgað sem snúið hafa frá kristinni trú til íslamstrúar. Ætla má að nokkrir tugir Íslendinga hafi tekið íslamska trú eftir að hafa gifst inn í íslamska fjölskyldu eða fundið samhljóm með íslam með öðrum hætti.
Í mars 1997 var trúfélag múslíma á Íslandi viðurkennt um leið og félag þeirra var stofnað. Fyrsta árið voru 78 skráðir í trúfélagið, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Það gekk snurðulaust fyrir sig stofna félagið með formlegum hætti og þar með renna 400 krónur af skattfé á mánuði til félagsins fyrir hvern félagsmann, líkt og gildir um önnur trúfélög. Þessir peningar duga þó skammt til þess að halda úti blómlegri starfsemi. Bróðurparturinn fer í greiða húsaleiguna í Ármúla. „Þótt við séum lítið trúfélag þurfum við að sinna nákvæmlega sömu skyldum og t.d. þjóðkirkjan; skírnum, giftingum og jarðarförum.“ Salmann og óbreyttir félagsmenn taka að sér að sinna ýmsum athöfnum, þar sem enginn gegnir því embætti hér á landi, líkt og prestarnir í þjóðkirkjunni. Menn þurfa því að taka sér frí úr vinnu þegar skyldan kallar og reyna að sinna þessum störfum eftir bestu getu.
Sérstakur grafreitur múslíma er í Gufuneskirkjugarði. Þegar þetta er skrifað hvíla yfir 20 múslímar þar. Eitt brýnasta verkefni Félags múslíma er að fá lóð til að byggja mosku. „Vonandi kemur að þessu með nýrri kynslóð múslíma sem er alin upp hér á landi,“ segir Salmann. „Við erum búin að sækja um lóðir frá því árið 2000 og erum enn þá á núllreit,“ segir Salmann og brosir en er þó bjartsýnn.
Teikning af moskunni liggur eðlilega ekki fyrir þar sem hún mun taka tillit til þeirrar lóðar og umhverfis sem fæst undir hana. „Við erum með arkitekt í hópnum og hann hefur oft hitt skipulagsnefnd en hendur hans eru bundnar á meðan lóðin er ekki fundin.“
Trúarhópar í leit að því sama
Það er víðar en á Íslandi þar sem múslímum hafa verið reistir þröskuldar í viðleitni sinni til að fá að reisa moskur. Þótt víða í Danmörku megi finna bænastaði múslíma má þar ekki finna mosku samkvæmt fullgildri skilgreiningu. Íslenskur múslími í Danmörku, sem blaðamaður Mannlífs ræddi við, segir það mál dæmigert fyrir tvískinnung Dana í málefnum múslíma. Þegar kemur að formsatriðunum varðandi moskubyggingu hafa þeir mætt mótlæti, líkt og á svo mörgum öðrum sviðum.
Í fjölmiðlaumræðunni hefur mönnum orðið tíðrætt um menningarárekstra á milli múslímskrar/arabískrar menningar og vestrænnar menningar. Salmann skynjar þetta ekki sem svo, en tekur undir það að finna megi fordóma. „Þessir hópar eru að sækjast eftir því sama; hamingju í lífinu og menn sem eru trúaðir vita að Guð er miskunnsamur og menn sjá fyrir sér Paradís í hyllingum. Þótt þú klæðir þig í buxur og ég í serk þarf ekki að vera mikill ágreiningur á milli okkar.“
Öðru hverju hafa komið upp mál varðandi venjur og hefðir, svo sem mataræði. Nýlegt dæmi er þegar svínakjöt var tekið af matseðlinum í Austurbæjarskóla í Reykjavík. „Það var mikið lagt út frá því en þetta var ákvörðun skólastjóra og eflaust tekin af hagkvæmisástæðum, að það væri ódýrara að geta þjónað öllum félagshópum. Þetta tiltekna mál kom ekkert sjónarmiðum okkar múslíma við, enda hef ég ekkert á móti því að kristnir menn borði svínakjöt.“
Að sama skapi segist Salmann ekki drekka áfengi. „Í okkar trúarbrögðum er bannað að smakka það en mér finnst óþarfi að banna Íslendingum það þótt ég gjarnan vildi að fleiri tækju þessa afstöðu.“
Sitthvað trú eða fanatík
Margoft hefur verið bent á að múslímar fylgi Kóraninum misvel í þessum efnum. Íslenskir múslímar kannast við þá umræðu. „Ef ég trúi einhverju þá tek ég það alvarlega. Þannig get ég ekki verið að predika yfir einhverjum um að það sé bannað að drekka áfengi en verið sjálfur undir áhrifum við bæn.“
Þá kemur enn og aftur að stóru spurningunni um fanatík, hvort umburðarlyndið vanti ekki hreinlega hjá múslímum sem félagshóp og þeir geri þá óbilgjörnu kröfu í samfélagi, sem að meirihluta er kristið, að menn hlýði þeirra reglum og venjum. „Guð er almáttugur en það er ekki þar með sagt að það eigi að framfylgja vilja hans með valdi.“
Að vera hreintrúa eða ekki, er líka stór spurning. Reykingar, áfengisdrykkja og óhollt mataræði og allt annað sem skaðar heilsuna er bannað, að mati Salmanns. „Guð er almáttugur og hann skapaði manninn í góðu formi og um leið og einhver skemmir hans meistaraverk, mannslíkamann, er verið að skaða hans sköpun. Menn verða að vera sannfærðir til þess að trúa, en fanatík er ekki vilji Guðs. Hann er miskunnsamur, eins og við lesum í Kóraninum. Jesús var laminn og barinn og gekk í gegnum ótrúlegar hremmingar, eins og hann talaði um við Móses. Það sama gilti um Múhammeð, hann var laminn og hrakinn frá sínu heimili en báðir voru þeir að biðja Guð um gera fólk að betri manneskjum.“
Líklega þurfa múslímar að þola það meira en margir hér á landi að „mega vera en bara ekki allt of sýnilegir“. Þeir eru minnihlutahópur og skera sig vissulega úr. „Meirihlutinn ber ábyrgð og má ekki traðka á minnihlutanum,“ undirstrikar Salmann. „Það segir sig sjálft að það er krafa sérhvers einstaklings sem stendur við sína skatta og skyldur að þurfa ekki allt sitt líf að berjast fyrir sjálfsögðum hlutum, sem undir eðlilegum kringumstæðum trufla ekki nokkurn mann.“
Ítrekað bent á öfgana
Kannski leitar meirihlutinn alltaf eftir öfgadæmum þegar hann skilur ekki eða neitar að taka tillit til sjónarmiða minnihlutans. Jóhanna Á. H. Jóhannsdóttir blaðamaður sem lést á síðasta ári tók viðtal sem birtist í Mannlífi í febrúarhefti í fyrra við íslenskan múslíma, Ingólf Shaheen. Hann þroskaðist og ólst upp í tveimur trúarhefðum, hefur dvalið í lengri og skemmri tíma í tólf af 22 arabalöndum og er með sanni afsprengi fjölmenningar. Í viðtalinu er vikið að umræðunni um Íraksstríðið, sem ráðamenn á Vesturlöndum eru endalaust að ræða um hvort eigi að viðurkenna sem mistök. Ingólfur spyr: „Hvernig getur dauði hundruða þúsunda Íraka, sem er versta afleiðing sameiginlegu ákvörðunarinnar um innrás í Írak, þá ekki verið mistök? Eina svarið sem mér dettur í hug er að samkvæmt viðmiðum stjórnmálamanna sem ekki viðurkenna innrásina sem mistök; þá sé í þeirra augum dauði þúsunda manna í arabalöndum ekki neikvæð afleiðing og þar af leiðandi ekki mistök. Ekki geta fordómar lýst sér meira en í einmitt þessari afstöðu.“
Þannig hefur verið margoft bent á að á Vesturlöndum taki menn beinlínis meðvitað öfgafyllstu dæmi af heimi múslíma en hitti sig oftast sjálfa fyrir í leiðinni. Sádi-Arabía og Afganistan eru oft nefnd í þessu sambandi. Ingólfur bendir á að í Sádi-Arabíu sé tíðkaður svokallaður wahabismi sem er sérstakt afbrigði af íslam sem aðeins þrjú til fjögur prósent múslíma í heiminum aðhyllast. „Landinu er líka stjórnað af gjörspilltri Sádi-ætinni,“ segir Ingólfur í viðtalinu. „Tekið skal þó fram af Sádar eru helstu bandamenn Vesturlanda fyrir botni Miðjarðarhafs, aðallega Bandaríkjanna.“
Þá er bent á talibana í Afganistan, sem er eitt fátækasta land í heimi og er best lýst sem miðaldar-ættbálkasamfélagi frekar en nútímaþjóðríki. Í Afganistan og Sádi-Arabíu búa innan við fimm prósent múslíma sem lítið eiga skylt við múslíma í öðrum löndum.
Vísað úr vinnu vegna slæðu
Í vestrænum fjölmiðlum eru öfgar trúarbragðanna dregnar fram í sífellu. Eftir 11. september varð vendipunktur og innflytjendur, ekki bara frá arabalöndum, sem blaðamaður Mannlífs ræddi við, segja að líklega sé langt í land með að eðlilegt jafnvægi skapist. Ef eitthvað er, hafi fordómarnir aukist.
Á Íslandi birtist þetta á öllum sviðum samfélagsins; í vinnunni, skólanum, í stjórnkerfinu og þar fram eftir götunum. Með öðrum orðum mæta mönnum fordómar, á grundvelli trúarbragða eða þjóðernis. Salmann sér málið frá nokkrum sjónarhornum, sem múslími, innflytjandi og íslenskur ríkisborgari. Hann telur að á síðustu árum hafi sigið á ógæfuhliðina hvað málefni minnihlutahópanna varðar.
Hann nefnir dæmi um að körlum og konum sé neitað um vinnu sökum trúar sinnar og hefða. „Ég þekki nokkur dæmi um að konum hafi verið vísað úr vinnu fyrir að ganga með slæður. Og þess eru mörg dæmi, þótt erfitt sé kannski að sanna þau, að múslímar þurfa að gera miklu betur en aðrir á vinnustaðnum til þess að verða metnir af verðleikum og fá þær stöður sem þeir sækjast eftir.“
Salmann segist skynja auknar hættur í kjölfar aukinna fordóma. Til dæmis í Bretlandi þar sem menn verða varir við að múslímum er sífellt þrengri stakkur skorinn, m.a. til náms.
Umdeild lög sem Chirac Frakklandsforseti knúði fram leggur bann við slæðum í skólum og opinberum stofnunum. Málið vakti gríðarlega umræðu og í öðrum löndum en Frakklandi var fylgst grannt með framgangi þess. „Í mínum huga er þetta einhvers konar fasismi, líkt og í Íran þar sem allar konur eru skikkaðar til þess að hylja hár sitt,“ segir Salmann.
Gerbreytt þjóðfélag
Árið 1930 var í fyrsta skipti spurt um ríkisborgararétt manna hér á landi en fram að því höfðu manntöl aðeins gefið til kynna hve margir voru fæddir erlendis en ekki hvort þeir voru þegar þegnar annarra ríkja. Í BS-ritgerð Ómars Ingþórssonar, í raunvísindadeild Háskóla Íslands, kemur fram að árið 1930 voru 1.454 með erlendan ríkisborgararétt, eða 1,3 prósent af mannfjöldanum, og hann bendir á að samkvæmt manntali 1940 hafði þeim fækkað, niður í 1.158 og voru þeir þá komnir niður í 1 prósent af mannfjöldanum. Aðalskýringin var fækkun meðal danskra og norskra ríkisborgara.
Það eru því talsvert aðrar aðstæður sem eru hér á landi á nýrri öld. Samkvæmt tölum Hagstofunnar er hlutfall erlenda ríkisborgara af mannfjöldanum 6 prósent árið 2007.
Viðmælendur Mannlífs koma frá ólíkum menningarsamfélögum og hafa hver sína sögu að segja. Flestir nefna þeir eitthvað sem betur má fara. Í heildina má skynja að gerðar séu jafnvel ríkari kröfur til innflytjenda hér á landi heldur en til innfæddra. Salmann segir hreinlega: „Ef þú ert útlendingur, þá þarftu nánast að vera fullkominn. Ábyrgð innflytjenda á því hvernig þeir aðlagast nýju landi er auðvitað mikil, en sama á við um fjölmarga í þjóðfélaginu sem kannski átta sig ekki á ábyrgð sinni. Ég nefni fjölmiðla í því sambandi. Ýmsar fréttir eru sagðar sérstaklega af útlendingum, t.d. að straumur þeirra leiti á slysadeild með kvefpestir. Það skyldi ekki vera að ástæðan væri sú að þeir hafa ekki heimilislækni? Jú, eða að Pólverjar hafi verið gripnir fyrir veiðiþjófnað í Elliðaánum. Getur verið að þeir hafi ekki vitað að það mátti ekki veiða þar án leyfis? Var eitthvert skilti sem sagði þeim það?“
Önnur kynslóð stór áhættuhópur
Rauði kross Íslands lét gera landskönnun í lok árs 2005 og byrjun árs 2006 á því hvaða hópar á Íslandi standi höllum fæti. Könnunin byggði á viðtölum við álitsgjafa víðsvegar á landinu, þ.e.a.s. fólk sem starfar í nánum tengslum við bágstadda. Fram kom að innflytjendur eru þriðji stærsti hópurinn af þeim sjö sem þátttakendur telja að standi verst í íslensku samfélagi. Fjölmargir viðmælenda RKÍ lýsa áhyggjum sínum af stefnuleysi stjórnvalda í málefnum innflytjenda og óttast afleiðingarnar ef ekki verður bugðist við fljótlega. Þannig telur viðmælandi, sem vinnur í nánum tengslum við öryrkja, að yfirvöld verði að gera sér grein fyrir þessum nýja þjóðfélagshópi sem sestur er að hér til frambúðar. Því þurfi að kortleggja innflytjendur með skerta starfsorku, geðsjúkdóma og svo aldraða í þeirra hópi.
Glögglega kemur fram í samantekt Rauða krossins að rétt er að óttast að misrétti gegn innflytjendum geti leitt til vandamála í framtíðinni. „Það sama mun gerast hér og í Frakklandi. 1. kynslóðin er hamingjusöm, fljót að koma sér upp bíl og íbúð. Fólk lifir á 10 þúsund kr. á mánuði og fjárfestir fyrir restina,“ segir viðmælandi.
Afkomendur sætta sig ekki við sömu aðstæður. Bent er á að þeir geri sömu kröfur um lífsgæði og þorri manna en lendi samt sem áður í verstu störfunum og í atvinnuleysi. „Þá byrja vandræðin. Fólk verður tregara til þess að ráða þessi ungmenni (2. kynslóðar) í vinnu. Þessir krakkar verða pirraðir og láta ekki bjóða sér þetta af skiljanlegum ástæðum. Önnur kynslóð er því sérstakur áhættuhópur.“
Það bendir því margt til þess að Íslendingar séu rétt að byrja að móta heilsteypta sýn á málefni innflytjenda. Þeir sem vel þekkja til segja að miklu fyrr hefði mátt leggjast yfir málin og sjá fyrir þann aukna straum sem verið hefur hingað til lands. Enn fremur hefðu Íslendingar geta lært af þeim mistökum sem gerð hafa verið í nágrannalöndnum. Eitt er víst að umræðan um innflytjendamál er hafin af fullum þunga.