Sveinseyrarpóstur Sigurðar G. Tómassonar:
Nú hlýtur maður að spyrja: Gerði Rio Tinto ekki sjálft samning um raforkukaup af Landsvirkjun? Skrifuðu fulltrúar fyrirtækisins ekki undir samninginn?
Við erum sagðir nokkuð þverlyndir og þrjóskir Bjólumenn. Held að þetta megi rekja allt til forföður okkar, Jóns Loftssonar í Odda en einn sona hans var Filippus. Sumir frændur mínir telja Filippus í Bjólu vera afkomanda hans. Þótt Jón Loftsson hafi kannski ekki verið þver eins og húsgafl eru samt þessi ummæli hans afar Bjóluleg: Heyra má ég erkibiskups boðskap en ráðinn er ég í að hafa hann að engu.
Í náttúrufræðideild MH vorum við látin læra bók sem mig minnir að hafi heitið Menneskets fysiologi og hafði verið kennd öldum saman í lærða skólanum, MR. Við vorum að bíða útkomu Líffræði eftir Weisz, sem Örnólfur meistari okkar þýddi snilldarlega. En á meðan við biðum sem sagt þessi danska. Mig minnir að allar verklegar æfingar hafi gengið út á að kryfja froska. Að þær hafi allar byrjað á þessum blíðuorðum: En frø tages og afklippes hovedet… En þetta er kannski bara martraðarkennt misminni!
Var að hlusta á upptöku með Hvorostofsky og kór og hljómsveit rauða hersns eins og það hét einu sinni en heitir nú eitthvað annað. Þá minntist ég þess þegar við Freyr fórum að gramsa í búningakistu Alþýðuleikhússins sem geymd var í kjallaranum á Sjafnargötu 11. Þarna fundum við sovéskan marskálksbúning, stígvél með en reyndar engin húfa. Þetta smellpassaði á Frey!. Hann klæddist búningnum og við brugðum okkur í Sigtún við Austurvöll. Við töluðum gervirússnesku okkar á milli, ég túlkaði og var ræðan mest kröfur um vodka. Freyr dansaði kósakkadans uppi á borðum. Gekk þetta nokkra hríð. Þá kom lögreglan og við vorum handteknir. Að sögn laganna varða var ólöglegt að vera í dulargervi á almannafæri. Á leið a stöðina sagði flokkstjórinn við okkur: Og svo talið þið bara rússnesku við varðstjórann strákar. Eftir stutt samtal á stöðinni var okkur sleppt. Urðum reyndar fyrir smá aðkasti í Bankastræti en komumst sæmilega heilir á Sjafnargötu. Daginn eftir fórum við í Sigtún því Freyr fékk ekki að taka frakkann sinn við handtöku. Hér er enginn an….s frakki hreytti konan í okkur! Held þið ættuð bara að fara þarna austur!