Eftir þetta varð alger nýliðunarbrestur. Loðnustofninn hrundi.
„Loðnuveiðar með flotvörpu hafa verið leyfðar um langt skeið norður og austur af landinu. Af alls níu milljóna tonna loðnuafla frá aldamótum veiddu íslensk skip tvær milljónir tonna í flottroll. Flotvörpuveiðarnar eru mjög umdeildar. Fullyrt er að þær sundri loðnutorfum og trufli göngur þeirra. Fiskur drepist í stórum stíl við að fara í gegnum möskva,“ segir Inga Sæland í nýrri grein.
„Af hverju er loðnan ekki látin njóta vafans og flottrollsveiðarnar bannaðar? Menn geta veitt loðnuna í nót. Nótin lokar af torfu eða hluta úr torfu en sundrar henni ekki eins og flottrollið. Áður fyrr var öll loðna veidd í nætur og það gekk bara vel. Hverjum dettur eiginlega í hug að leyfa flotvörpuveiðar á loðnu?
Erum við nú að uppskera eins og við sáðum? Við förum illa fram gegn lífríkinu og náttúran nær alltaf fram hefndum að lokum,“ skrifar Inga.
Inga vitnar í opinbera skýrslu og segir: „Hún sýnir að loðnan er búin að vera í vandræðum í töluverðan tíma. Nýliðun léleg nánast frá 2001. Hrunið hófst þá. Við lestur skýrslunnar, sem er á vef Alþingis, vakna grunsemdir um að við höfum ekki hegðað okkur tilhlýðilega í nýtingu loðnustofnsins. Það sé nú að koma okkur rækilega í koll.“
Og meira úr grein Ingu Sæland:
„Allt frá um 2005 dró mjög úr útgefnum loðnukvótum því það mældist lítið af loðnu. Ráðgjöf náði síðast milljón tonna heildarkvóta 2003 en svo alltaf minna. Síðustu árin var hann langt undir 500 þúsund tonnum. Hefði ekki átt að sýna sérstaka varúð þegar loðnukvótinn var aðeins 173-285.000 tonn 2015 til 2018? Þá var loðnan veidd alveg komin að hrygningu, til að ná úr henni hrognunum sem áttu að verða undirstaða nýliðunar stofnsins. Voru þetta afgerandi mistök? Var gengið of nærri hrygningarstofninum þegar rétt hefði verið að banna veiðar undan Vesturlandi svo sú litla loðna sem komin var á hrygningarslóð fengi að hrygna í friði? Eftir þetta varð alger nýliðunarbrestur. Loðnustofninn hrundi.“