„Margt kemur upp í hugann við glæpafréttirnar af Samherja. Það sama kom upp í huga við glæpafréttirnar af Panamaskjölunum. Þarna í báðum þessum tilvikum er um einn samnefnara að ræða það er siðleysi kapítalismans, fjármagnshyggjunnar.“
Þannig skrifar Svavar Gestsson á Facebook.
„Menn sem ánetjast græðgisstefnunni gera hvað sem er til að græða meira og meira. meira í dag en í gær,“ skrifar Svavar og svo áfram: „Það birtast fréttir á hverjum einasta degi sem staðfesta þetta. Samherji var ekki eina fréttin í gær. Fréttin af þeim sem eyðileggja ungar konur í framan í bakherbergjum og bílskúrum segir sömu sögu: Græða, græða. Á hverjum einasta degi birtast svona tíðindi og þau koma jafnvel fram í kjarabaráttu þeirra sem hæst hafa kaupið að ekki sé minnst á svokallaða bónusa stórfyrirtækjanna. Það er algerlega takmarkalaust hvað manninum getur komið til hugar þegar hann vill bæta við gróða sinn. Vandinn er sá að í kapítalísku þjóðfélagi leyfist þetta allt og sá þykist mestur og bestur sem græðir mest og hraðast og hreykir sér hæst. Heilu stjórnmálaflokkarnir eru stofnaðir nýlega til þess eins að halda á lofti frelsinu til að græða algerlega hömlu- og eftirlitslausu; frelsi heitir það sem er rangnefni. Stundum köllum við þetta frjálshyggju, frelsi er of fallegt til þess að loka það inn í fjötrum fjármagnsins. Það er merkilegt að sömu dagana birtast heilu langhundarnir um það að sósíalisminn sé úr sögunni. Staðreyndin er þó sú að eina von mannkynsins út úr ofbeldissamfélagi fjármagnsaflanna er sósíalismi sem er grænn og byggist alltaf á lýðræðislegum forsendum. Um þetta má skrifa bók; status á fési gerir vissulega enga stoð. En tilgangurinn með þessum ábendingum hér er að vekja athygli á samnefnaranum: Samherji, Panama – allt eru þetta greinar á sama trénu sem heitir siðleysi kapítalismans, fjármagnshyggjunnar.“