Helga Vala Helgadóttir rýndi í „lausn“ ríkisstjórnarinnar:
„Hef verið aðeins fjarri síðasta sólarhring og því er viðbragðið eftir því. Fór loksins að skoða þessa „lausn“ íslenskra stjórnvalda og fagna vissulega að okkur sem mótmæltum hástöfum hafi tekist að snúa stjórnvöld í átt að mannúð hvað varðar fjölskyldurnar tvær, enda annað algjörlega óboðlegt og ómanneskjulegt en nú þarf að bretta upp ermar og halda áfram. Stjórnvöld hafa bæði belti og axlabönd í þessari reglugerð:
1. Hér er ráðherra að veita Útlendingastofnun heimild, ekki skylda hana, til að taka til efnismeðferðar umsókn barns sem hefur fengið vernd í öðru ríki að ákveðnum skilyrðum uppfylltum (10 mánuðir og tafir ekki á ábyrgð barns). Þetta breytir engu því Útlendingastofnun hefur þessa heimild, Útlendingastofnun á beinlínis að taka mál til skoðunar ef sérstök ástæða er til og mál barna þættu mér ávallt vera sérstök ástæða enda börn á flótta í sérstaklega viðkvæmri stöðu að mínu mati.
2. ÚTL er heimilt “á grundvelli sérstakrar beiðni eða að eigin frumkvæði” að taka umsókn barns til efnismeðferðar. Er þarna nægilega skýrt að barnið eða fulltrúi barnsins geti beðið um þetta eða þarf beiðnin að koma annars staðar frá? Hvað merkir þetta? Er einhver umsækjandi sem sækir um alþjóðlega vernd ekki að biðja um efnismeðferð? Það tel ég ekki vera svo þetta hefur ekkert að segja.
3. Áður fjallað um hér að ofan. ÚTL skal að eigin frumkvæði skoða umsóknir og meta hvort taka eigi í efnismeðferð, hvað hefur breyst?
4. Meira en 10 mánuðir liðnir? Af hverju í ósköpunum? Af hverju er það ekki talið nauðsynlegt að veita barni á flótta sérstaka vernd frá fyrstu mínútu eftir að það er komið til Íslands? Nú er það svo að umsóknir barna eiga að sæta flýtimeðferð, hvað þýðir þetta?
5. Tímafresturinn, að heimilt sé að taka umsókn til efnismeðferðar sé hún eldri en 10 mánaða gildir bara ef töf er ekki á ábyrgð umsækjanda. Nú veit ég að stjórnvöld hafa t.d. talið það á ábyrgð umsækjanda ef mál hefur dregist meira en 12 mánuði vegna þess að vegabréfamál var fast í kerfinu vegna manneklu hjá lögreglu. Ætlar ráðherra að gera eitthvað í því? Ætlar ráðherra að láta börn bera ábyrgð á svifaseinu kerfi á Íslandi og þannig komast hjá því að veita börnum vernd? Hér er ekkert fjallað um að börn í sjálfu sér séu í viðkvæmri stöðu, þeim er ekki veitt nein einasta vernd og hefur það ekkert breyst.
Við verðum að halda áfram. Að mínu mati þarf áfram að skipa skilanefnd yfir dómsmálaráðuneytið og hreinsa þar til svo hægt sé að tryggja mannréttindi á Íslandi, hvort tveggja er varðar börn á flótta sem og þá sem leita réttar síns fyrir dómstólum landsins (Landsréttur). Ríkisstjórninni er þetta ofviða.“