Garðbæingar leita frekar eftir ríkisstyrk en að hækka útsvar eða aðra skatta. Garðabær fullnýtir ekki skattaheimildir.
„Bæjarstjórn Garðabæjar telur að það hafi langvarandi áhrif á alla þjónustu við íbúa og nauðsynlegar framkvæmdir ef efnahagslegum áhrifum af kórónuveirufaraldrinum verði velt yfir á fjárhag sveitarfélaga og mætt þar með stóraukinni lántöku,“ segir Mogginn að segi í tillögu í bæjarstjórn Garðabæjar.
Mogginn kallar í Almar Guðmundsson bæjarfulltrúa vegna málsins. Almar vísar til þess að umræða um stuðning ríkisins við sveitarfélögin sé annars staðar á Norðurlöndunum. Ríkið sé sá aðili í þessu gangverki sem hafi greiðastan aðgang að lánsfé á bestu kjörum. Það sé því hagfellt að ríkið hafi þarna hlutverki að gegna.
Í Mogganum segir að í bókun bæjarstjórnar komi fram að áætlað tekjutap og kostnaðarauki fyrir Garðabæ vegna afleiðinga kórónuveirufaraldursins sé 1,3 milljarðar króna á yfirstandandi ári. „Almar segir að Garðabær standi ágætlega en þegar svona högg komi þurfi að bregðast við. Til greina komi að draga úr kostnaði og framkvæmdum en ekkert hafi verið ákveðið í því efni. Ef taka þurfi lán til rekstursins sé hætt við að getan til fjárfestinga minnki.“
Svo þetta: „Garðabær er eitt þeirra sveitarfélaga sem ekki nýta tekjustofna sína til fulls. Spurður hvort til greina komi að hækka útsvar vegna ástandsins segir hann að sú spurning að ríkið komi almennt til skjalanna sé miklu stærri en rými til hækkunar útsvars eða annarra skatta.“