- Advertisement -

Gamma tók rándýrt neyðarlán

Í mínum huga benti þetta til þess, að GAMMA hefði í reynd verið komið í þrot.

Marinó G. Njálsson skrifar:

GAMMA var fyrirtæki sem menn annað hvort dáðust að eða höfðu óbeit á. Fyrri hópurinn leit á GAMMA sem hóp gulldrengja sem höfðu þann eiginleika, að allt sem þeir snertu breyttist í gull. Það leit lengi vel þannig út. Ég veit ekki hvort menn ofmetnuðust, en fyrir líklegast tveimur árum fór að halla undan fæti. Seinni hópurinn leit á þá sem gamma, sem hugsuðu bara um að græða á daginn og grilla á kvöldin.

Lítið er hægt að gera nema geta í eyðurnar og horfa á ansi uggvænlega þróun. Staða GAMMA var a.m.k. orðin þannig fyrri hluta árs 2018, að fyrirtækið leitaði eftir sameiningu við Kviku banka. Áður hafði verið greint frá því að rekstrarkostnaður ársins 2017 hafði hækkað um tugi prósenta (vel yfir 50%). Nú sameiningin við Kviku var hið mesta furðuspil. Fyrst átti kaupverðið að vera 4,8 ma.kr., svo lækkaði það um fjórðung og svo niður í helming upphaflegu verðhugmyndar. Ég held að flestir hafi hleypt brúnum, þegar kom í ljós að GAMMA hafði fengið neyðarlán hjá Stoðum upp á 1 ma.kr., sem átti að vera til skamms tíma. Bara nokkrar vikur eða jafnvel nokkra daga. Stoðir fengu 150 m.kr. í þóknun fyrir láninu.

Í mínum huga benti þetta til þess, að GAMMA hefði í reynd verið komið í þrot.



Í mínum huga benti þetta til þess, að GAMMA hefði í reynd verið komið í þrot. Fyrirtækið væri með svo mörg skemmd epli í sjóðum sínum, að rekstrarforsendur þess væru brostnar. Ég fjallað um þetta í færslu í sumar (https://www.facebook.com/marino.g.njalsson/posts/10157693209374172) og sagði m.a.: „Vöxtur GAMMA (sem hefur verið nánast ævintýralegur) var sem sagt dæmigerð bóla áhættufjárfesta sem var við það að springa.“ Það er nefnilega málið eða var þetta svikamylla? Þó ég sé ekki að væna GAMMA menn um að standa undir nafni og vera gammar, þá er með ólíkindum hve margir sjóðir fyrirtækisins hafa hrunið að verðgildi síðustu 2 ár. Hvað réð verðgildi þeirra? Hvernig stendur á því að tveir fasteignasjóðir sem metnir voru með milljarða á milljarða ofan í eigið fé, voru með nánast 0 kr. í eigið fé, ef þeir náðu því þá, nokkrum mánuðum síðar? Er maðkur í mysunni og voru sjóðirnir ranglega skráðir með þetta eigið fé í þeirri von að skútan rétti sig við?

Hverju ætli verði kennt um núna? Krónunni? Barnaskap? Glópagulli sem þeir létu blekkjast af? .

Eitt er þó augljóst. GAMMA varð að bjarga. Kvika banki tók það að sér. Hinn kosturinn hefði verið Arion banki, en hann átti nóg með sjálfan sig. Þetta er því miður farið að minna á þegar Gnúpi var bjargað í janúar 2008. Annað dæmi kemur líka upp í huga. Er það bandarískt. Þar voru líka gulldrengir á ferð sem ofmetnuðust í trú á sjálfan sig. Þetta er vogunarsjóðurinn LTCM sem var m.a. í eigu Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, Myrons Scholes og Roberts C. Mertons. Þeir voru að mati aðdáenda óskeikulir, en allt endaði á því að Timothy Geithner, þá bankastjóri Federal Reserve Bank of New York (seðlabanki NY) varð að bjarga þeim eða öllu heldur fjárfestum þeirra og LTCM var lagður niður. Það var nefnilega óhugsandi að LTCM myndi draga allt ríkasta lið Bandaríkjanna niður með sér. Þannig er þetta einhvern veginn með GAMMA, nema að fjárfestar munu tapa því Kvika hefur ekki efni á að taka á sig allt tap GAMMA. Þeir munu tapa háum upphæðum og það er bara vegna þess hluta ísjakans sem við sjáum.

Hve mikið leynist undir yfirborðinu, á eftir að koma í ljós, en því miður held ég að meira leynist af röngu verðmati á sjóðum fyrirtækisins. Mér finnst raunar með ólíkindum að Kauphöllin hafi ekki stöðvað viðskipti með alla sjóðina (líka þá sem Kvika sameinaði undir Júpíter) og að FME hafi ekki hafið rannsókn á starfsháttum fyrirtækisins. Er fólk ekki að vinna vinnuna sína? Það er útilokað, að eigið fé fasteignasjóðs hafi farið úr 4,4 ma.kr. niður í 42 m.kr. á nokkrum mánuðum. ÚTILOKAÐ. Eina vitræna skýringin er að þessir 4,4 ma.kr. hafi verið froða, tilbúningur, blekking eða hvaða orð það er annað sem fólk vill nota. Það er útilokað að sjóður sem auglýstur er sem góður ávöxtunarkostur um áramót („Góð ávöxtun sjóðs­ins á rætur að rekja til vel tíma­settra fjár­fest­inga og ágætrar fram­vindu í þró­un, fram­kvæmdum og sölu á vegum sjóðs­ins“), hafi farið í að vera með allt niður um sig í september („Þá hefur fram­kvæmda­kostn­aður verið tals­vert yfir áætl­unum á árinu. Fyrri mats­að­ferðir tóku ekki að fullu til­lit til fjár­magns­kostn­aðar félags­ins auk þess sem hann hækk­aði veru­lega með útgáfu skulda­bréfs (UPPH21 0530) í vor.“). Já, GAMMA sjóðurinn Novus tók 2,7 ma.kr. lán með 15% vöxtum í vor, því enginn vildi lána á lægri vöxtum. 15% þýðir að menn þurfa að græða helling áður en fjárfestar fá einhverja ávöxtun á peningana sem þeir settur í sjóðinn. Ég spyr aftur: Af hverju er Kauphöllin ekki búin að stöðva viðskipti með þessa sjóði? Af hverju heyrist ekkert frá FME?

En aftur að gulldrengjunum. Fjármálasnillingum hins nýja Íslands. Jæja, þar fór um sjóferð þá eða var það himnaför, svo hátt risu þeir. Hverju ætli verði kennt um núna? Krónunni? Barnaskap? Glópagulli sem þeir létu blekkjast af? Það er ekki nóg að segja, að framkvæmdakostnaður hafi bara allt í einu farið fram úr áætlunum eða verðþróun hafi ekki verið sú sem ætluð var. Það er ekki eins og það hafi verið óðaverðbólga og efnahagsöngþveiti. Ég bíð eftir trúverðugum skýringum, en á ekki von á því að þær komi.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: