Eins og stundum skrifar borgarstjórinn fyrrverandi, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, bréf í Moggann um málefni borgarstjórnar. Eðlilega er hann lítt hrifinn af frammistöðu Dags B. Eggertssonar og félaga. Einn kafli bréfs gamla góða Villa er um fjármálastjórn meirihlutans. Yfir til Villa:
Fjármálastjórn borgarinnar hefur verið á brauðfótum undanfarin ár. Eyðslustefna er allsráðandi og tugir milljóna króna settir í margs konar gæluverkefni meirihlutans sem engu skila. Skuldir aukast stöðugt og A-hluti borgarsjóðs er rekinn með halla ár eftir ár. Öllum er ljóst, nema borgarfulltrúum meirihlutans, að það stefnir í enn alvarlegri fjárhagserfiðleika borgarsjóðs á þessu ári og þeim næstu. Það er ef til vill hægt að halda áfram með þessum hætti um stundarsakir en ekki til langs tíma. Endalaus skuldaaukning og óstjórn fjármála hefur sínar alvarlegu afleiðingar fyrr en síðar. Borgarfulltrúar meirihlutans ættu að kynna sér siðareglur borgarfulltrúa en þar segir í 7. lið: „Við förum vel með fjármuni borgarinnar og eignir hennar.“