„Það er sárara en tárum taki, virðulegi forseti, að maður skuli ítrekað standa hér í þessu æðsta ræðupúlti landsins og vera að biðja um eitthvað, óska eftir einhverju og mæla fyrir einhverju sem öllum á að vera augljóst að er sjálfsagt mál. Hvernig í ósköpunum er hægt að mismuna fólki svona gífurlega á sama tíma og verið er að reyna að röfla um jöfnuð hér? Aldrei verið annar eins jöfnuður og nú, kaupmátturinn algerlega í hæstu hæðum — þvílíkt bull, virðulegi forseti,“ sagði Inga Sæland í þingræðu þegar hún mælti fyrir frumvarpi Flokks fólksins um sjúkratryggingar.
„Þetta á eingöngu við um suma. Þetta á við um ákveðna útvalda hópa í samfélaginu. Þetta á ekki við um alla. Þetta á ekki við um þá sem við eigum að setja í fyrsta sæti áður en við gerum nokkuð annað úr okkar sameiginlegu sjóðum. Við eigum alltaf að setja fólkið í fyrsta sæti. Eins og kjörorð Flokks fólksins er: Fólkið fyrst, svo allt hitt.“
Næst sagði Inga:
„Gamall maður kom til mín grátandi um daginn, hann er að hjálpa konunni sinni. Hún er með vandamál í munni. Í fyrsta lagi voru ekki smíðaðar eðlilegar tennur fyrir hana. Í öðru lagi var skilin eftir tönn sem var farið að grafa undir og í þriðja lagi voru þau hjónin rukkuð um fleiri hundruð þúsund fyrir aðgerð sem var í raun mislukkuð frá a til ö. En það kom ekki til greina að sleppa þeim við þá greiðslu, alls ekki, enda er alltaf hægt að níðast á þeim sem hafa ekki ráð á að leita sér lögfræðiaðstoðar og draga svona lið fyrir dóm. Ég trúi því alla vega að dómskerfið okkar myndi standa með fólkinu þegar verið er að svína svona svívirðilega á því. Það er sárara en tárum taki að horfa upp á fullorðið fólk niðurbrotið í vanlíðan og kvíða, fólk sem er búið að vinna í sveita síns andlitis alla sína ævi og ætti nú að vera komið á þann stað að geta lifað hér þokkalega áhyggjulausu ævikvöldi. Ég velti fyrir mér hvort æðstu embættismenn og ráðamenn í landinu hafi bara yfir höfuð aldrei nokkurn tíma hitt slíkt fólk, hafi aldrei heyrt sögu þess, hafi raunverulega aldrei tekið það inn í blóðrásina hvað það eru margir hér sem eiga um sárt að binda. Eru þessir ágætu æðstu ráðamenn þjóðarinnar í einhverjum fílabeinsturni? Sitja þeir bara í einhverjum glerturni og hafa aldrei nokkurn tímann stigið niður á jörðina til þeirra sem virkilega þurfa á hjálp þeirra að halda? Þeir geta ekki einu sinni sett sig í þeirra spor heldur klifa á því endalaust að allir hafi það frábært, nú í 9,4% verðbólgu og blússandi vöxtum þar sem lánin eru að margfaldast hjá fjölskyldunum í landinu, fullorðna fólkinu og öryrkjunum sem hafa ekki efni á að leita sér nauðsynlegrar tannlæknaþjónustu. Þeir öryrkjar og eldri borgarar sem reiða sig alfarið á lífeyri almannatrygginga eiga nógu erfitt fyrir með að ná endum saman. Þau hafa ekkert fjárhagslegt svigrúm, ekki neitt. Þau geta ekki veitt sér neinn munað í mat. Þau geta ekki rekið bíl, allt of margir gjörsamlega skrimta,“ sagði Inga Sæland.