- Advertisement -

Gamaldags og hjákátleg foringjadýrkun

Viðhorf Sjálfstæðismenn verða svo hjákátlegir þegar foringjadýrkun þeirra opinberast. Í Morgunblaðinu í dag er heilsíðu umfjöllun um málverkið af Bjarna Benediktssyni fyrrverandi forsætisráðherra og borgarstjóra.  Flestum þekkjum við söguna. Þegar leiðtogafundur þeirra Ronalds Reagans og Mikhails Gorbachevs, var haldinn í Höfða í október 1986, var myndin af Bjarna heitnum á vegg herbergisins þar sem þeir funduðu. Síðar var bara skipt um mynd. Sumum fannst það tímabært, öðrum ekki, einsog gengur. Þannig var það bara.

Í fréttaskýringu, eða þrýstingi Morgunblaðsins í dag vegna myndarinnar segir: „1994 létu R-listinn og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri fjarlægja málverkið af Bjarna Benediktssyni og koma fyrir í geymslu. Þegar Vilhjálmur Þ. Vilhjálsson varð borgarstjóri um skamma hríð, eða í rúmt ár frá 2006 til 2007, lét hann verða eitt af sínum fyrstu verkum, að láta setja málverkið af Bjarna Benediktssyni aftur á sinn stað í Höfða við hátíðlega athöfn. Þar fékk málverkið að vera í friði í nokkur ár, eða allt til ársins 2011 að meirihlutinn undir stjórn þeirra Jóns Gnarr borgarstjóra og Dags B. Eggertssonar, forseta borgarstjórnar, lét fjarlægja málverkið á nýjan leik, og breyta þar með hinu fræga sögusviði.“ Best er að taka fram að Dagur var ekki forseti borgarstjórnar, hann var formaður borgarráðs.

„Ég held að hafi nú bara verið Listasafn Reykjavíkur sem tók þá ákvörðun, en safnið fer með málverkamál borgarinnar. Ég held að það hafi ekki verið nein pólitík í því,“ sagði Dagur við Morgunblaðið i grein dagsins.

Málverksmálið fær byr í seglin þar sem til stendur að gera leikna kvikmynd um leiðtogafundinn og hefur verið óskað eftir að fá kvikmynda í Höfða á næsta ári.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Morgunblaðinu rennur blóðið til skyldunnar og segir í dag: „Ljósmyndin sem birt var á forsíðu Morgunblaðsins mánudaginn 13. október, 1986, að afloknum leiðtogafundinum, var tekin af ljósmyndara Hvíta hússins. Hún sýnir þá Gorbachev og Reagan í fundarherberginu í Höfða og að baki blasir við málverk Svölu Þórisdóttur Salman af Bjarna Benediktssyni heitnum, fyrrverandi forsætisráðherra og borgarstjóra. Þessi ljósmynd varð heimsmynd með því að birtast í öllum helstu fjölmiðlum heims, sjónvarpi, dagblöðum og tímaritum.“

Og um hvað snýst allt þetta mál? Eitt málverk af einum manni. Og þau sem telja sig hafa málstað málverksins að verja eru komin langt framúr sér.

Mun borgarstjóri beita sér?

Vitnum meira til Moggans, og Dagur borgarstjóri er spurður:

„- Muntu beita þér fyrir því að málverkið af Bjarna heitnum Benediktssyni fari aftur upp á vegg í Höfða til frambúðar?

„Það kemur til greina, en það hefur bara ekkert verið rætt. Það verður örugglega sett upp í Höfða, ef tökur myndarinnar fara þar fram. Það hafa einhverjir viljað gera mikla pólitík úr þessu, en í mínum huga hefur myndavalið í Höfða aldrei snúist um pólitík. Málverkið af Bjarna Benediktssyni hefur aldrei verið neitt stórmál, heldur það að Höfði sé fallegur og aðgengilegur.“

Málverkið sem hangir á veggnum í fundarherberginu nú, er Búðareyri við Seyðisfjörð, olíumálverk á striga eftir Gunnlaug Scheving, málað á árunum 1930 til 1935.

Það er Listasafn Reykjavíkur sem velur listaverk sem hanga á veggjunum í Höfða. Helga Lára Þorsteinsdóttir, safnafræðingur hjá Listasafni Reykjavíkur, sagði í samtali við Morgunblaðið að málverkið af Bjarna Benediktssyni væri í geymslu á Kjarvalsstöðum.

Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, sagði sína skoðun, á foringjadýrkuninni, á einfaldan en fínan hátt.
Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, sagði sína skoðun, á foringjadýrkuninni, á einfaldan en fínan hátt.

Aðspurð um hvort það hefði verið rætt að setja málverkið af Bjarna Benediktssyni aftur upp í fundarherberginu í Höfða, áður en tökur hæfust næsta vor á kvikmyndinni um leiðtogafundinn, sagði Helga Lára: „Mér skilst að það standi til og það kæmi mér ekki á óvart ef það yrði gert. Það væri auðvitað eðlilegt að leikmyndin yrði eins lík upphaflegu myndinni og hægt væri. Það er dálítið síðan þetta var rætt, en við erum mjög fljót að bregðast við, verði eftir því óskað.“

Helga Lára sem rætt er við í lok greinarinnar er Helga Lára Þorsteinsdóttir deildarstjóri safnadeildar Listasafns Reykjavíkur. Hún tekur af allan vafa. Verði vilji til að myndin af Bjarna verði á veggnum þegar kvikmyndin verður tekin, er það bara sjálfsagt.

Gamaldags foringjadýrkun

Inntak greinarinnar er ekki endilega myndin af Bjarna heitnum Benediktssyni. Miklu frekar gamaldags foringjadýrkun þar sem barist er endalaust til að varðveita sögu, sögu sem þeir skrifuðu sem lengst ganga í þessu, þeir sem ákváðu að fylla stóran vegg, í ráðhúsinu, af hjákátlegum brjóstmyndum af fyrrverandi borgarstjórum. Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, sagði allt sem segja þarf um foringjadýrkunina á meðfylgjandi mynd.

Sigurjón Magnús Egilsson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: