- Advertisement -

Gagnslausar aðgerðir ríkisstjórnarinnar

„Gott mál, að stjórnvöld ætli að leggja sóttvarnalækni til fleiri tól í baráttunni við innflutning smita.  En hvaða gagn er að setja mörkin við 1000 smit á hverja 100.000 íbúa síðustu 14 daga, þegar aðeins eitt land í Evrópu er með hærra gildi en 750, þ.e. Svíþjóð með 810!  Mér finnst gott að menn ætluðu að nota smittölur til að banna ónauðsynleg ferðlög frá Póllandi, en þeir fá líklega bara Svíþjóð í netin,“ skrifar Marinó G. Njálsson á Facebook..

„Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru vita gagnslausar.  Sem stendur eru 4 lönd í heiminum með framangreinda tíðni yfir 1.000, þ.e. Bermuda, Curacao, St. Barth, og Urugauy.  (Uppfært miðað við síðustu 14 daga frá sl. sunnudegi.)  Þau eru öll utan EES og því hafa ferðalög frá þeim verið bönnuð til Íslands í ansi marga mánuði.  Þrjú til viðbótar (tvö utan EES) eru á milli 750 og 1000, þ.e. Svíþjóð, Tyrkland og Bahrain. 

Tölur sóttvarnastofnunar Evrópu eru vissulega eitthvað hærri, en þær eru fyrir viku 13 og 14, þ.e. í fjórtán daga frá pálmasunnudegi.  Þá voru sex Evrópulönd með tíðni yfir 750, þ.e. Eistland, Frakkland, Kýpur, Pólland, Svíþjóð og Ungverjaland, en núna eru þau öll nema Svíþjóð undir 750.  Kortið sem fylgir með sýnir stöðuna 15. apríl og á því eru hááhættusvæði skipgreind vera með 500 smit eða meira.

Hver verður árangurinn af „hertum“ reglum ríkisstjórnarinnar?  Kíkjum á það:

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í fyrsta lagi, verður enginn komufarþegi skikkaður á sóttvarnahótel, vegna þess að viðkomandi er að koma frá landi með tíðni yfir 1000.  Ástæðan er einföld.  Ekkert beint flug er frá slíku landi og ferðalög frá þeim til Íslands eru þegar bönnuð. 

Í öðru lagi, munu í besta falli aðeins komufarþegar frá Svíþjóð (með tíðni yfir 750) vera skikkaðir í sóttvarnahótel hafi þeir ekki möguleika á sóttkvíarúrræði á eigin vegum.  Ástæðan er einföld.  Svíþjóð er eina Evrópulandið með svo háa tíðni nýsmita.  (Og ég sem hélt að ætlunin væri að grípa Pólverja!)

Í þriðja lagi, þá verður af Evrópuríkjum aðeins íbúum Svíþjóðar bannað að fara í ónauðsynlegt ferðalag til Íslands.  Enn er ástæðan einföld.  Bannið nær bara til íbúa landa, þar sem smittíðnin er yfir 750 á hverja 100.000 íbúa síðustu 14 daga.  (Úps, fjöldi nýrra smita í Póllandi hefur hrapað á nokkrum dögum og þar með smittíðnin.  Kannski að það sé ekki bara vandamál í samskiptum við Pólverja á Íslandi, heldur eiga yfirvöld í vandræðum með að fylgjast með tölum frá Póllandi.)

Ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þykist vera að gera góða hluti.

Í fjórða lagi, skilgreinir ríkisstjórnin hááhættusvæði vera með 750 smit eða meira, meðan sóttvarnastofnun Evrópu miðar við 500.  Hvers vegna þennan mun?  Með þessu sleppa íbúar Andorra, Eistlands, Frakklands, Hollands, Króatíu, Kýpur, Litháen, Norður-Makedóníu, Póllands, San Marino, Slóveníu og Ungverjalands við að dvelja á sóttvarnahóteli detti þeim í hug að fara í ferðalag til Íslands.

Já, ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þykist vera að gera góða hluti og bregðast hratt við svo kveða megi niður vágestinn Covid-19.  Kasta á út öflugu neti til að grípa smitberana, en eitthvað misreiknuðu menn sig varðandi möskvastærðina.  Netin munu í besta falli ná Svíum, því möskvarnir eru of stórir fyrir aðra.

Ég legg til að gildið verði fært niður í 600, en vara við því, að innan nokkurra daga gæti nokkur landanna sem eru yfir því gildi, verið komin undir það.  Sem er náttúrulega alveg frábært, en ekki er samt víst að flugfarþegar sem komi frá þeim löndum, verði neitt ábyrgari við að halda sóttkví, en blessaður karlinn sem rauf sóttkví þarna í lok mars.

Að lokum vil ég benda á, að þegar sá, sem talin er gera ábyrgð á smitum síðustu daga, kom til landsins í lok mars, þá hefðu þessar reglur, sem ríkisstjórnin ætlar að hraða í gegn um þingið, EKKI skikkað viðkomandi til að dvelja á sóttvarnahóteli.  Á komudegi viðkomandi voru í gildi útreikningar sem náðu yfir vikur 10 og 11 (þ.e. frá 8. – 21. mars) og þá var gildið fyrir Pólland innan við 700.  Hér er því verið að kasta út neti sem ætlað er að grípa svona syndaseli.  Þó þessar reglur hefðu verið í gildi í mars, þá hefði viðkomandi fengið sömu móttökur og hann fékk.  Pinna upp í nefið, leiðbeiningar um sóttkví og vinsamleg tilmæli um að fylgja þeim.  Smitið hefði borist til landsins og allt farið á sama veg.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: