Gunnar Smári skrifar:
Það er ekki hægt að ræða glæpi nýfrjálshyggjunnar án þess að ræða skatta. Það væri álíka og ræða morð án þess að nefna morðstaðinn, morðvopnið eða hin myrtu. Það var fyrst og fremst í gegnum skattalækkanir á eignafólk, fyrirtækja- og fjármagnseigendur sem auðvaldið náði öllum völdum í samfélaginu, jók auð sinn og braut niður og bældi andstöðu. Í byrjun var því haldið fram að skattalækkanir til hinna ríku myndu skila sér í öflugra atvinnulífi og aukinni velsæld fyrir alla. Hvorugt gekk eftir; efnahagslífið veiktist vegna ójafnari dreifingu tekna og skattalækkanir til hinna ríku veiktu hið opinbera, helstu vörn hinna tekjulægri gegn kúgun og ofurvaldi auðvaldsins; fyrst með skuldasöfnun, síðan með útvistun og sölu almannaeigna og –auðlinda til auðvaldsins, þá samdrætti í opinberri þjónustu, aukinni gjaldtöku, niðurbroti vaxta- og barnabóta, veikingu almannatrygginga og hærri sköttum á fólk með lágar eða miðlungstekjur. Þegar fólk áttar sig á brauðmolakenningin stenst ekki, það falla ekki stærri molar af borði auðvaldsins þótt það fái enn stærri skammta; verður augljóst að skattalækkanir til hinna ríku á nýfrjálshyggjuárunum eru aðeins endurúthlutun gæða; gæði eru tekin frá almenningi og flutt til auðvaldsins; frá hinum mörgu til hinna fáu. Nýfrjálshyggjan er gagnbylting hinna ríku gegn þeirri lífskjarabyltingu sem almenningur hafði náð fram frá stríðslokum fram á áttunda áratuginn, á eftirstríðsáratímabilinu, sem kalla mætti gullöld Vesturlanda.
Skattkerfið dró úr óréttlæti kapítalismans
(Fyrir þau sem nenna ekki eða geta ekki lesið tölur þá er niðurstaðan sú að í gamla skattkerfinu varð hagur fyrirtækja og eigenda þeirra um 1,75% betri á hverju ári innan hagkerfis sem stækkaði um 2,75% á mann. Auðvaldið tók því 2/3 af hagvextinum til sín en ekki allan vöxtinn.)
Byrjum þá þar. Áður en skattkerfið var sveigt að hagsmunum hinna ríku var tekjuskattur á fyrirtæki um 50%, ekki bara á Íslandi heldur víðast um Vesturlönd. Fjármagnstekjur báru sömu skatta og launatekjur, um 37,5%. Eignaskattar voru lagðir á hreina eign fyrirtækja (1,90%) og einstaklinga umfram lágmarkseign (1,45%). Þetta eru skatthlutföllin á Íslandi um 1990 og þau voru ósköp lík því sem tíðkaðist um öll Vesturlönd. Þetta kerfi hafði verið byggt af reynslu og stefndi að því að halda jafnvægi í samfélaginu, vinna gegn innbyggðu óréttlæti kapítalismans, sem sífellt vill færa fé frá þeim sem lítið eða ekkert eiga til þeirra sem mikið eiga og vilja eignast enn meira.
Til að kanna hvernig fyrirtæki og eigendur þess fara í gegnum svona skattkerfi skulum við fyrst búa til dæmigert stærra fyrirtæki úr samanlögðum reikningum VÍS, HBGranda og Sýn (áður Vodafone) síðustu sex árin. Þetta er þá fyrirtæki sem skuldar 10 milljarða króna og á eigið fé upp á 4,5 milljarða króna, veltir um 7,3 milljörðum króna og skilar um 650 milljón króna hagnaði fyrir skatta. Köllum þetta dæmigerða fyrirtæki SVG og látum það malla áfram í aldarfjórðung, 25 ár, undir gamla skattkerfinu, og skoðum áhrif skattkerfis eftirstríðsáranna á fyrirtækið og eiganda þess.
Á fyrsta ári skilar fyrirtækið 650 m.kr. hagnaði og af því tekur skatturinn helminginn, 313 m.kr., og notar til að byggja upp þau grunnkerfi samfélagsins sem rekstur fyrirtækisins byggir á. Af því sem eftir stendur taka eigendur tæpan helming til sín í arð, eða 148 m.kr. en restin leggst við eigið fé fyrirtækisins og er notað til fjárfestinga. Hækkun eiginfjár eykur hagnaðinn, fjárfestingar skila sér í bættri afkomu. Áður en kemur að því að hækka eigið fé greiðir fyrirtækið eignaskatta af hreinni eign, 86 m.kr. Samanlagðar skattgreiðslur fyrirtækisins eru því um 399 m.kr. þetta fyrsta ár. Samanlagðar skuldir og eigið fé, það fé sem bundið er í rekstrinum er 14,5 milljarðar króna. Miðað við verðmat sem byggir á þrisvar sinnum EBITDA (tekjur fyrir vexti, skatta, arð og afskriftir), sem var ekki óalgengt viðmið fyrir skattabreytingar nýfrjálshyggjunnar, þá er söluverðmæti þessa fyrirtækis um 12,3 milljarðar króna á upphafsreit. Við gerum ekki ráð fyrir að fyrirtækið sé skráð á markað, aðeins að þetta sé mögulegt söluverðmæti.
Eigandi fyrirtækisins fékk samkvæmt þessu 148 m.kr. í arð og af honum greiddi hann 37,5% skatt, 56 m.kr. Eftir sitja 92 m.kr. Miðað við eigið fé fyrirtækisins eru þetta um 2% í tekjur eigandans eftir skatta (og verðbreytingar, það er engin verðbólga í þessum dæmi; allar tölur sveiflast jafnt með verðbreytingum). Ef við gerum ráð fyrir að hrein eign þessa eigenda hafi verið 1 milljarður króna á fyrsta ári (þetta er stórt fyrirtæki) þá greiðir hann auk þess 15 m.kr. í eignaskatta, samtals um 70 m.kr. í skatt eða 47% af arðgreiðslunum. Í framhaldinu reiknum við þessum eigenda 5 m.kr. á mánuði í eyðslu en að aðrar tekjur leggist við eignir hans; hann fjárfestir sem sé fyrir restina.
Og svo rúllum við þessum áfram í aldarfjórðung. Eftir 25 ár er hagnaðurinn kominn í 947 m.kr. og eigið fé fyrirtækisins í 6,8 milljarða króna. Samanlagður tekjuskattur og eignaskattur er orðinn 603 m.kr. Arðurinn er sá sami, 47,5%, og skilar nú eiganda sínum 225 m.kr. og af þeim borgar hann 84 m.kr. í skatt og síðan 33 m.kr. af 2,3 milljarða króna eignum sínum.
Söluverðmæti fyrirtækisins hefur vaxið úr 12,3 milljörðum í 18,7 milljarða króna. Aðrar eignir eigandans hafa vaxið úr 1 milljarði í 2,3 milljarða. Afl fyrirtækisins, samanlagt eigið fé og skuldir, hefur vaxið úr 14,5 milljörðum króna í 22,0 milljarða króna. Þetta er um 51% vöxtur á 25 árum, sem mallar undir fjármagninu í fyrirtækinu, eða um 1,75% árlegur vöxtur. Það er það sem skattkerfi eftirstríðsáranna skaffar þessu fyrirtæki. Frá 1968 til 1993 var hagvöxtur á mann á Íslandi um 93% á 25 árum og 25 árin þar á undan, 1943 til 1968 um 86%; að meðaltali var hagvöxtur á mann árlega um 2,75% á þessum tímabilum. Það má því segja að skattkerfi eftirstríðsáranna hafi verið stillt svo að óbreyttur rekstur tæki til sín um 2/3 hluta hagvaxtarins. Það var kannski ekki alveg þannig, en skattkerfið leitaði þangað.
En með því að halda í horfinu myndi fyrirtækið SVG og eigendur þessu ná þessum hluta hagvaxtarins til sín. Til að ná meiru þyrfti eigandinn að sækja fram eða breyta einhverju. Til að fá minna í sinn hlut þyrfti hann að klúðra einhverju, veðja á rangan hest eða fara fram úr sér. En einhvern veginn svona var módelið stillt á eftirstríðsárunum, ekki bara hérlendis heldur um öll Vesturlönd. Íslenska skattkerfið var ekki séríslenskt heldur byggt á reynslu stjórnvalda um öll Vesturlönd. Þetta var skattkerfið sem reyndist ágætlega á því sem kallað hefur verið gullöld Vesturlanda, eftirstríðsárin frá stríðslokum fram undir nýfrjálshyggjuna undir lok áttunda áratugarins, tímabil þar sem velferðarkerfi og innviðir þessara samfélaga voru byggðir upp á sama tíma og efnahagslífið var með afbrigðum kröftugt. Þetta er líka tímabil minnkandi ójöfnuðar, almennari menntunar, betri heilsu, lífslíkur jukust, barnadauði dróst saman o.s.frv.
Gagnbylting auðvaldsins
(Hér kemur fram að skattabreytingar nýfrjálshyggjuáranna skertu tekjur almennings, þ.e. ríkissjóðs, en stækkuðu hraðar fyrirtækin og bættu hag eigenda þeirra enn meira; tekjur eigandans eftir skatta urðu sexfalt hærri en fyrir breytingu.)
Setjum nú þetta sama fyrirtæki í gegnum 25 ár af núgildandi skattkerfi.
Á fyrsta ári er fyrirtækið rekið með 625 m.kr. hagnaði fyrir skatta en nú tekur ríkið aðeins til sín 20% tekjuskatt, eða 125 m.kr. Það eru því 500 m.kr. eftir til skiptanna milli fyrirtækisins og eigandans og eigandinn getur greitt sér út 2/3 hluta af hagnaðinum sem arð og samt skilið 167 m.kr. eftir í fyrirtækinu, rétt rúmlega það sem við gerðum í fyrra dæminu. Þessi þróun hefur verið skráð í Bandaríkjunum þar sem arður var um 40-45% af hagnaði fyrirtækja á áttunda áratugnum en er í dag um 60-65% af tekjum, auk þess sem stórum hluta af hagnaði er nú varið í að láta fyrirtækin kaupa hlutabréf í sjálfum sér, sem eykur verðmæti hlutafjár og þar með eign hluthafa. Auknar arðgreiðslur eru því fylgifiskur nýfrjálshyggjunnar og afleiðing af skattalækkunum hennar.
Þar sem búið er að afnema eignaskatta fyrirtækja greiðir fyrirtækið SVG aðeins þessa 125 m.kr. í skatt í samanburði við 399 m.kr. í gamla kerfinu. Ríkissjóður og eigendur hans, almenningur í landinu, verður af 274 m.kr.; rúmlega 2/3 af skatttekjum sínum.
Og almenningur á eftir að tapa meiru. Eigandinn borgar aðeins 20% fjármagnstekjuskatt af 334 m.kr. arði sínum eða 67 m.kr. og engan eignaskatt. Eftir breytingar borgar eigandinn því samtals 67 m.kr. af 334 m.kr. tekjum á móti 70 m.kr. af 148 m.kr. tekjum í eldra skattkerfi. Tekjur hans eftir skatta hækka úr 78 m.kr. í 267 m.kr.
Samanlagðir skattar af tekjum og eignum fyrirtækis og eigenda lækka því úr 468 m.kr. í 192 m.kr. Skattaafslátturinn er 276 m.kr. 59% af skattinum var felldur brott.
Ef við rúllum þessu fyrirtæki, SVG, í gegnum þetta nýja skattkerfi í 25 ár verður niðurstaðan sú að hagnaðurinn kominn í 1.495 m.kr. síðasta árið, þar sem eigið fé fyrirtækisins vex hraðar, er nú orðið 10,8 milljarða króna. Samanlagður tekjuskattur og eignaskattur er orðinn 299 m.kr. Arðurinn er hlutfallslega sá sami, 67%, og skilar nú eiganda sínum 798 m.kr. og af þeim borgar hann 160 m.kr. í skatt. Undir lok tímabilsins eru tekjur eigandans eftir skatta komnar í 638 m.kr. á meðan þær voru 107 m.kr. undir lok 25 ára tímabils gamla skattkerfisins. Nýja skattkerfið hefur sexfaldað hreinar tekjur eigandans.
Ef við rennum yfir breytingarnar þá er hagnaður fyrirtækisins fyrir skatta 58% hærri í nýja kerfinu (þar sem eigið féð vex hraðar og við gerum ráð fyrir að hagnaður sé ætíð sama hlutfall eiginfjár); tekjuskattur lækkar samt um 37% og ríkissjóður fær samanlagt 49% minna af tekju- og eignaskatti fyrirtækisins; arðurinn sem eigandinn tekur til sín hefur hækkað um 255% og þótt fjármagnstekjuskatturinn hafi hækkað um 89% þá hafa skattgreiðslur eigandans aðeins hækkað um 36% þar sem eignaskattar einstaklinga hafa verið felldir niður.
Samanlagt hafa skatttekjur ríkissjóðs, almennings, af þessu fyrirtæki, farið úr 721 m.kr. á lokaári 25 ára tímabilsins í 458 m.kr., lækkað um 36%. Ráðstöfunarfé eigandans hefur hins vegar hækkað úr 107 m.kr. í 638 m.kr. eða um 495% við breytingar á skattkerfinu.
Og þetta er í stuttu máli ástæða fyrir skattabreytingum nýfrjálshyggjutímans; að færa fé úr ríkissjóði til eignafólks, fyrirtækja- og fjármagnseigenda.
En græða ekki allir?
Kenning nýfrjálshyggjunnar var að með því að lækka skatta á eignafólk, fyrirtækja- og fjármagnseigendur myndi mikill asköpunarkraftur losna úr viðjum og efnahagslífið eflast stórlega og af þeim sökum myndu laun og lífskjör alls meginþorra fólks batna. Gerðist það?
Áðan benti ég á að á 25 ára tímabili frá 1943 til 1968 hafi landsframleiðsla á mann vaxið um 86% og á jafnlöngu tímabili frá 1968 til 1993 hafi landsframleiðsla á mann vaxið um 99%. Á þessu tímabili stækkaði hagkerfið um 2,75% á ári að meðaltali á hvern íbúa. Á síðustu 25 árum, sem kalla mætti nýfrjálshyggjutímann, hefur landsframleiðsla á mann hins vegar ekki aukist um nema 71%. Það gera 2,25% á ári að meðaltali. Upptaka nýfrjálshyggjunnar dró því úr vextinum en jók hann ekki. Ef við tökum skemmri tíma, frá 1991-2010, þá var vöxturinn aðeins að meðaltali 1,62% á ári. Ferðamannastraumurinn síðustu ár hefur lyft upp meðaltali síðustu ára, enda er hann fyrir utan stríðsárin mesta hagvaxtarsprengja Íslandssögunnar og getur varla flokkast sem sérstakt framlag nýfrjálshyggjunnar.
En ef hagvöxtur var minni innan nýfrjálshyggjunnar en eftirstríðsára-kapítalismans; hvernig má það þá vera að fyrirtækið okkar, SVG, stækkaði meira undir nýja skattkerfinu en því eldra; velta þess og hagnaður jókst um 51% í gamla kerfinu en um 139% í því nýja?
Tja, hvað skal segja: Málið er að nýja skattkerfið tryggir þessu fyrirtæki 3,68% vöxt á hverju ári að óbreyttum rekstri og ytri aðstæðum. Ef við trúum því að samfélagið sé keyrt áfram af fyrirtækjum og ef fyrirtæki og eigendur þeirra fái meira til sín muni fyrirtækin vaxa meira og þar með allt hagkerfið; nú þá ætti það að ganga eftir að skattalækkanir til hinna ríku, efnafólks, fyrirtækja- og fjármagnseigenda, myndu efla fyrirtækin og þau síðan hagkerfið og allir græða af þeim mikla vexti. En þannig virkar þetta bara ekki, alveg sama hvað kennismiðir nýfrjálshyggjunnar segja.
Þvert á móti sitjum við uppi með þá stöðu eftir eftir skattabreytingar nýfrjálshyggjunnar að fyrirtækin og fjármagnið vill vaxa hraðar á sama tíma og hagkerfið vex hægar. Undir fyrra skattkerfinu stækkaði kaka fyrirtækjanna og fjármagnsins um 1,75% innan hagkerfis sem óx um 2,75%. Gömlu fyrirtækin og óbreyttur rekstur tók til sín 2/3 af hagvextinum, restin varð til af nýjum fjárfestingum innan eða utan gömlu fyrirtækjanna. Nýja skattkerfið gat hins vegar af sér fyrirtæki sem stækkuðu um 3,68% á ári innan hagkerfis sem stækkaði aðeins um 2,25% – jafnvel aðeins um 1,62%. Fyrirtækin stækkuðu því um 2/3 umfram landsframleiðslu, eða vildu stækka svo mikið – jafnvel meira en tvöfalt meira en landsframleiðslan. Og þetta á bara við um fyrirtækin. Eignir eigendanna jukust enn meira eða um sem nemur 9,88% á ári, margfalt meira en hagkerfið.
Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart. Einmitt svona virkar kapítalisminn ef hann er ekki reyrður niður; hin ríku verða auðugri á kostnað hinna. Auður vex hraðar en hagkerfið. Hin ríku verða sífellt ríkari og hin fátæku fátækari. Ef ekki er brugðist við eignast sá ríkasti á endanum allt.
Skrímslið gengur laust
En hvernig er umhorfs í samfélagi þar sem skattkerfið heldur ekki aftur af auðvaldinu og auðurinn vill vaxa hraðar en hagkerfið?
Ég minni fyrst á að dæmið af fyrirtækinu SVG er módel, ekki raunveruleg mynd af fyrirtækjum, eigendum þess eða hagkerfinu. Hagkerfið vex ekki jafnt og þétt heldur sveiflast upp og niður. Og þótt skattkerfið bjóði fyrirtækja- og fjármagnseigendum upp á mikinn vöxt þá auðnast ekki öllum að fanga hann. Sumir tapa jafnvel í uppsveiflunni, margir í niðursveiflunni.
Og sveiflurnar verða meiri eftir því sem ríkissjóður færir fyrirtækjum og fjármagni aukin vaxtarskilyrði. Það segir sig sjálft. Ef við felum stjórnendum fyrirtækja að vaxa um 3,68% á ári og fjármagnseigendum að ávaxta sitt pund um 9,88% munu margir freistast til að leggja fé í vafasamar fjárfestingar, þær skárri klárast fljótt. Þegar hagkerfið vex hægar en fjárfestingageta fyrirtækja og fjármagnseigenda aukast líkur á vondum fjárfestingum; fyrirtæki og fjármagn teygja sig lengra í von um gróða. Og í þessu ástandi verður jafnframt til eignabóla, sem aftur eykur í reynd fjárfestingagetu fyrirtækja- og fjármagnseigenda, þar sem eignir þeirra hækka á pappírunum og verða stærra andlag skulda og þar með fjárfestingagetu. Eignabólan ýtir því enn frekar undir vafasamar og glæfralegar fjárfestingar. Eins og við fengum að kynnast í Hruninu, og munum aftur kynnast innan tíðar, eykur skattkerfi nýfrjálshyggjunnar hættuna á kreppum og hrunum. Fjármagnið sem áður tilheyrði opinberum sjóðum, og hefði verið nýtt til innviðauppbygginga eða aukinnar velsældar meginþorra fólks, er beint inn á brautir spákaupmennsku og brasks.
Fyrir nú utan þann hluta sem stungið er undan og falinn á aflandseyjum. Það er önnur afleiðing af því að flytja fé úr sameiginlegum sjóðum og yfir til fárra auðugra fjölskyldna. Þær geta ekki eytt þessu fé innan hagkerfisins og flytja hluta þess burt. Það er ein ástæða þess að hagkerfi vex minna þegar hin ríku fá meira.
Annað einkenni nýfrjálshyggjunnar er að sífellt stærri og stærri fyrirtæki drottna yfir mörkuðum með sífellt minni og minni samkeppni. Þegar hagkerfið bíður ekki upp á vöxt innan óbreytt rekstrar grípa fyrirtæki til þess að nýta það fé sem skatturinn gefur þeim til að fjármagna kaup á öðrum fyrirtækjum. Við upphaf nýfrjálshyggjunnar var Bónus búð en eftir sameiningu við Hagkaup varð þetta fyrirtæki eitthvað allt annað; flugfélag og banki og guð má vita hvað ekki. Í dag er Bónus Hagar sem er líka lyfjaverslun og olíudreifingarfyrirtæki. Til hvers? Ekki fá viðskiptavinir Bónus ódýrari eða betri þjónustu vegna þess að fyrirtækið á líka apótek? Nei, fyrirtæki sem búa við skattkerfi nýfrjálshyggjunnar fá tækifæri til að kaupa látlaust upp önnur fyrirtæki, þau stækka meira en hagkerfið og leggjast því í reynd á beit innan samfélagsins; éta upp allt sem þau komast yfir.
Sameiningar skila aldrei viðskiptavinum betri eða ódýrari þjónustu, stór fyrirtæki eru nær án undantekninga verri vinnustaðir en litlir; það er lengri boðleið bæði frá viðskiptavinum og launafólki til þeirra sem taka ákvarðanir og því verða stærri fyrirtæki svifaseinni og ná síður að skilja hlutverk sitt. Og sameiningar eru ekki einu sinni góðar fyrir eigendur fyrirtækja, stór fyrirtæki skila ekki hlutfallslega meiri hagnaði eða arði en smærri. Sameiningar eru fyrst og síðast til að mæta þörf fyrirtækjanna sjálfra til að stækka meira en hagkerfið; sameiningar eru svar við ofurvexti sem skattalækkanir nýfrjálshyggjunnar kölluðu fram.
Og þetta verðum við að hafa í huga þegar við metum hið ímyndaða dæmi af fyrirtækinu SVG hér að ofan. Það óx um 139% þegar hagvöxtur á mann óx bara um 71%. Það gefur því ekki alveg rétta mynd að segja að skatttekjur af fyrirtækinu og eigenda þess hafi vaxið úr 192 m.kr. í 458 m.kr. á þessu 25 ára tímabili. Til að ná þessum vexti innan hagkerfisins varð SVG því að gleypa annan rekstur sem hafði greitt skatta fyrir. Vöxturinn á skatttekjum ríkisins af óbreyttum rekstri var því aðeins úr 192 m.kr. í 328 m.kr. samanborið við við vöxt úr 468 m.kr. í 721 m.kr. í gamla kerfinu.
Og tekjutap almennings á þessu 25 ára tímabili nýfrjálshyggjunnar var því í reynd 8,3 milljarðar króna, bara af þessu eina fyrirtæki. Tekju- og eignaskattar fyrirtækis og eiganda þess fóru úr rúmum 14,6 milljörðum króna á 25 ára tímabili innan gamla kerfisins niður í tæpa 6,4 milljarða króna innan þess nýja, lækkuðu um meira en helming.
Og til hvers? Til hvers var dregið úr opinberri þjónustu, gjaldtaka aukin og nýir skattar lagðir á almenning til að fjármagna þessa aðgerð? Nú, svo að hin ríku gætu orðið enn ríkari og nýtt aukið afl sitt til að sveigja samfélagið enn frekar að sínum hagsmunum og þörfum. Frá hagsmunum og þörfum almennings. Frá hagsmunum fjöldans að hagsmunum hinna fáu.
Og þetta stefndi í enn verra
Hér að ofan hef ég tekið dæmi af skattkerfi dagsins í dag og borið saman við skattkerfi eftirstríðsáranna. Skattkerfið í dag er hins vegar nýfrjálshyggjukerfið eftir Hrun. Fyrir Hrun var fjármagnstekjuskattur aðeins 10% og stefnt var að því að koma tekjuskatti fyrirtækja niður í 10% einnig.
Ef við keyrum slíkt kerfi í 25 ár hefðu skatttekjur ríkisins af fyrirtækinu og eigenda þess fallið úr rúmum 14,6 milljörðum króna á tímabilinu öllu í rúma 3,2 milljarða króna af óbreyttum rekstri; 78% af skatttekjunum hefðu verið felldar burt. Arðgreiðslur hefðu hækkað úr 4,6 milljörðum króna yfir tímabilið í 15,6 milljarða króna. Tekjur eigandans eftir skatta á lokaárinu hefðu vaxið úr 107 m.kr. í 795 m.kr. og eignir hans hefðu hækkað úr 2,3 milljörðum króna í 12,8 milljarðar króna – allt sem afleiðing af skattabreytingum sem bæði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar ráðgerðu.
Við þurfum að losna við þetta
Það má deila um hvort kapítalisminn hafi breytt um eðli á nýfrjálshyggjutímanum eða hvort hún sé aðeins sérlega skaðleg útgáfa, kapítalisminn á ákaflega vondum degi. Þótt við bökkuðum út úr nýfrjálshyggjunni og skrúfuðum ofan af ákvörðunum sem niðurbrot skattkerfisins, eyðileggingu opinberrar þjónustu, veikingar velferðarkerfis, niðurbroti innviða og aukningu ójöfnuðar þá sætum við enn uppi með óréttlæti kapítalismans og ósvaraðar spurningar frá lokum eftirstríðsáranna: Hvað svo? Hvert þróum við samfélagið héðan? Hvernig getum við enn aukið lýðræði og vald almennings, hvernig getum við enn aukið öryggi þeirra sem standa veikast, hvernig getum við aukið frelsi almennings – ekki bara hinna ríku?
En það er erfitt að bera þessar spurningar upp þar sem við höfum fallið ofan í vök nýfrjálshyggjunnar, við þurfum að komast upp á þurrt til að umræða um þessar spurningar verði möguleg. Og eins og þegar fólk fellur niður um vök er öruggasta leiðin að snúa við og finna aftur ís sem heldur okkur. Það er ekki víst að slíkur ís sé fram undan. Hvort sem fólk vill afnema kapítalismann eða ekki; getur það sameinast um að skrúfa ofan af eyðileggjandi áhrifum nýfrjálshyggjunnar.
Og það er víðtæk sátt um það á Vesturlöndum að nýfrjálshyggjan er eitur. Þegar fólk er spurt í skoðanakönnunum hvort það vilji hækka skatta á hin ríku svara 70-90% já, það fer eftir löndum en jafnvel í Bandaríkjunum er yfirgnæfandi stuðningur fyrir að bakka út úr skattaeftirgjöfum til efnafólks, fyrirtækja- og fjármagnseigenda. Sama á við um þegar fólk er spurt um opinbert heilbrigðiskerfi, hlutverk ríkisvaldsins í uppbyggingu og rekstri innviða, lágmarkslaun sem fólk getur lifað af og aðrar kröfur sem nýfrjálshyggjan stillti sér gegn. Þrátt fyrir að vera ríkjandi stefna stjórnvalda um öll Vesturlönd nýtur nýfrjálshyggjan lítils stuðnings fólks, almenningur upplifir sig sem hann hafi verið rændur völdum og að samfélagið sé keyrt áfram samkvæmt hagsmunum annarra; að ekkert tillit sé tekið til þarfa hans, vona og væntinga. Gallinn er að ekki hefur tekist að byggja upp nægjanlega sterka samstöðu, nægilega einbeitta hreyfingu almennings, til að ná völdum aftur af hinum ríku, sem enn eru að þrýsta í gegn gagnbyltingu sinni gegn almenningi. En þótt slíkhreyfing sé enn ekki til er almenningur til í að prufa flest sem er í boði og sem boðar breytingar, almenningur er í raun til í hvað sem er annað en nýfrjálshyggjuna. Það er því sorglegt að þeir flokkar sem spruttu af verkalýðsbaráttu síðustu aldar stilli sér í dag upp innan nýfrjálshyggjunnar og haldi því fram að stjórnmálabarátta dagsins snúist ekki um gagnbyltingu og glæpi hinna ríku heldur um að verja þá mannréttindasigra sem unnust á tíma nýfrjálshyggjunnar, þá sigra sem auðvaldið sætti sig við. Markmið þessara flokka virðist vera að verja samfélag nýfrjálshyggjunnar til að verja stöðu þeirra hópa sem fengu réttarbót innan hennar, en ekki að fella nýfrjálshyggjuna til að tryggja þeim réttarbót og frelsi sem kúgaðir eru innan þessa and-mannúðarkerfis. Úr verður bandalag kapítalista og leifanna af vinstri til varnar nýfrjálshyggjutímanum annars vegar og hins vegar bandalag kapítalista og ný-fasista, sem stefna á næsta stig kapítalismans, enn frekari kúgun almennings undir fasískri stjórn auðvaldsins. Hvort sem verður ofan á mun auðvaldið vinna. Hvort sem verður ofan á mun almenningur tapa.
Almenningur þarf að ná forystu í samfélagsumræðunni; krefjast jöfnuðar og öryggis, mannréttinda og frelsis, samfélags byggt upp af samkennd og samfélagslegum markmiðum. Það er í raun vel sýnilegt hvað almenningur vill. Gallinn er að stjórnmálakerfin eru ekki lengur farvegur fyrir vilja almennings heldur stífla. Það þarf að rjúfa hana.