- Advertisement -

Fyrsti starfsmaðurinn af tólf

Samfélag Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur skipað Guðrúnu Agnesi Þorsteinsdóttur formann nýrrar úrskurðarnefndar velferðarmála til fimm ára. Nefndin tekur til starfa 1. janúar næstkomandi við sameiningu sex úrskurðar- og kærunefnda sem starfa á málefnasviði velferðarráðuneytisins. Guðrún Agnes verður jafnframt forstöðumaður úrskurðarnefndarinnar.

Þetta kemur fram í frétt frá velferðarráðuneytinu.

Guðrún Agnes lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1991. Hún hefur frá árinu 2008 verið framkvæmdastjóri úrskurðarnefndar almannatrygginga. Árin 2001 til 2008 starfaði hún í félagsmálaráðuneytinu þar sem hún sinnti margvíslegum lögfræðilegum verkefnum og starfaði meðal annars fyrir úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála, kærunefnd jafnréttismála og kærunefnd húsnæðismála. Áður starfaði hún um árabil hjá yfirskattanefnd en einnig hjá sýslumanninum í Reykjavík.

Úrskurðar- og kærunefndir sem sameinast í nýrri úrskurðarnefnd velferðarmála við gildistöku laga um úrskurðarnefndina nr. 85/2015 1. janúar næstkomandi eru kærunefnd barnaverndarmála, kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, úrskurðarnefnd almannatrygginga, úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála og úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ákvörðun um sameiningu nefnda byggist á því að skapa eina öfluga starfseiningu með föstu starfsfólki sem sinnir þessum verkefnum í fullu starfi. Markmiðið er að auka hagkvæmni og bæta vinnubrögð. Kærum hefur fjölgað mikið á liðnum árum og þær nefndir þar sem málafjöldi er mestur hafa átt í erfiðleikum með að úrskurða innan lögbundinna fresta. Þar sem úrskurði varða oft mjög mikilsverða hagsmuni kærenda er því brýnt að bæta úr þessu.

Gert er ráð fyrir að starfsmenn kærunefndar velferðarmála verði 12 – 14.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: