Fréttir

Fyrsta flugfélagið til að rekja flugvélar sínar á rauntíma

Malaysian Airline fyrst flugfélaga til að rekja flugvélar sínar í rauntíma.

By Ritstjórn

April 19, 2017

Malaysia Airlines mun verða fyrsta flugfélagið í heiminum til að taka í notkun nýjan og byltingarkenndan búnað sem mun rekja ferðir flugvéla með gervihnattartækni í rauntíma og senda upplýsingar um staðsetningu flugvélanna beint til jarðar. Kerfið sem um ræðir er samstarfsverkefni fyrirtækjanna þriggja SITAONAIR, Aireon og FlightAware og var í gær tilkynnt að Malaysia Airlines verður fyrst allra flugfélaga til að nota búnaðinn og fá aðgang að staðsetningu flugvéla sinna á mínútu fresti hvar sem þær eru staddar á jarðarkringlunni.

Með ADS-B tækni frá Aireon verður fyllt upp í þá auðu bletti sem nú þegar eru í flugumferðarsvæðum yfir hafsvæðum og afskekktum héruðum sem í dag koma ekki fram á ratsjá.

Ekki þarf að setja upp neinn viðbótarbúnað um borð í flugvélar Malaysia Airlines til að virkja þessa tækni sem nefnist SITAONAIR´s AIRCOM® FlightTracker og mun félagið því geta séð staðsetningu á þeim flugvélum sem eru að fljúga í gegnum svæði sem er ekki sýnilegt flugumferðarstjórum og það með mikilli nákvæmni.

„Rauntímastaðsetning flugvéla um allan heim hefur verið langþráð markmið í flugheiminum og við erum mjög stolt yfir því að verða fyrsta flugfélagið til að innleiða þessa tækni“, sagði Izham Ismail, flugstjóri og flugrekstarstjóri hjá Malaysia Airlines.

„Malysia Airlines mun verða í lykilhlutverki þegar þessi þjónusta verður virkjuð á næstu mánuðum í ljósi þeirra hræðilegu atburða sem áttu sér stað árið 2014 og mun félagið því geta séð rauntímastaðsetning, hvar sem er á jörðinni, hvenær sem er“, segir Don Thoma, framkvæmdarstjóri Aireon.

Kerfið verður tilbúið til notkunar á næsta ári þegar lokið verður við að tengja kerfið við á sjötta tug Iridium NEXT gervitungla en þann 14. janúar sl. var fyrsta NEXT gervihnettinum skotið á loft með SpaceX Falcon 9 eldflaug með búnað innanborðs sem mun virkja gervihnatthrænt ADS-B dreifikerfi.

Alls verða 66 gervitungl sem verða staðsett á sporbaug jarðar sem munu ná að hylja öll svæði á hnettinum inn í ADS-B kerfið sem hingað til hefur verið tengt við jarðstöðvar.

Allt um flug