„Stjórnmálamenn hafa brugðist atvinnuveginum í svo mörgum atriðum og bændurnir sjálfir eru kúgaðir og daufir,“ þannig skrifar Guðni Ágústsson, fyrrum ráðherra, í Moggann. Það er fyrst og síðast Framsókn sem hefur verið til varnar fyrir sveitirnar. Staða flokksins er of aum um nú til að flokkurinn geti krafist eins né neins. Og þar með að fara með landbúnaðarráðuneytið.
„Margir telja að landbúnaðurinn verði horfin atvinna í landinu nema vakning verði og viðsnúningur. Bæði verði stjórnmálamenn og bændur að vakna og grípa til aðgerða ef ekki á allt að fara á versta veg. Við eigum afburðagóða bændur þrátt fyrir allt í öllum búgreinum, en það hallar undan fæti. Ungt fólk vill í sveit og búskap en lífskjörin stoppa það af. Það er undir okkur sjálfum komið hvort hinar vondu spár rætast. Ég fullyrði að stjórnmálaflokkarnir eru allavega í orði á því að vilja sjá sterkan landbúnað og þangað ber að beina kastljósi umræðunnar um hver þróunin er og hvert stefnir,“ skrifar Guðni.
Þótt landbúnaður sé vart nefndur á nafn lengur í ríkisstjórn eða á Alþingi vilja neytendur íslensk matvæli á sitt borð. Enn getum við Íslendingar snúið við og fært bændum nánast það verkefni að framleiða flestallar landbúnaðarvörur á viðsjárverðum tímum um veröld alla. Allar kjötvörur, allar mjólkurvörur, allt grænmeti. Og brauð, bjór og viský að auki af íslenskum ökrum.“