- Advertisement -

Fyrri stjórnarandstaða var meðvirk

Eyþór Arnalds í viðtali. Segir skjóta skökku við þegar embættismönnum er ætlað að hafa aðhald með borgarfulltrúunum, ætti að vera á hinn veginn. Segir líka að kjararáð hafi unnið gegn ríkisstjórninni.

Eyþór Arnalds: „Það er ekki hollt fyrir þá sem hafa verið lengi við völd að fá ekki aðhald, en það skorti talsvert upp á heilbrigt aðhald.“

Skýrari skil eru fátíð en eru nú milli meirihluta og minnihuta í borgarstjórn. Flest verður að ágreiningi, jafnvel allt. Samskiptin hafa orðið að fréttaefni sem og ýmislegt annað. Athygli hefur vakið hversu kostnaðaráætlanir hafa reynst langt frá raunvirði, sem lesa má um hér. Fyrir utanaðkomandi virðist sem fyrri stjórnarandstaða í Ráðhúsinu hafi ekki séð margt af því sem nú er að skýrast. Var hún kannski meðvirk, Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn? Sá hún ekki rykið í hornunum?

„Ég held að fyrri stjórnarandstaða hafi að einhverju leyti verið meðvirk. Og þar með ekki verið virk stjórnarandstaða. Það er ekki hollt fyrir þá sem hafa verið lengi við völd að fá ekki aðhald, en það skorti talsvert upp á heilbrigt aðhald. Borgin var því lengi að bregðast við í stóru sem smáu. Húsnæðisvandinn verður til í borginni og þó einhverjar raddir hafi varað við vantaði mikið upp á að borgarstjórnarmeirihlutinn tæki það nægilega alvarlega. Vandi húsnæðislausra er ein afleiðing og það er fyrst núna í sumar sem vakin er nægjanleg athygli á því samfélagsmeini. Núverandi stjórnarandstaða samanstendur af fólki með ólíkan bakgrunn, en það kann einmitt að vera styrkur hennar.“

Milljarðar framúrkeyrsla

Þú gætir haft áhuga á þessum

Byrjum á hversu framkvæmdir virðast illa undirbúnar. Kostnaður reynist stundum margfaldur miðað við það sem áætlað var. Nú hefur frést að kostnaður við þrjár skólabyggingarr er nú áætlaður alls um milljarði meiri en áður var talið. Framundan er samdráttur í brýnu verkefnum, svo sem malbikun, ekki rétt? Og kannski víðar?

„Endurskoðuð fjárfestingaráætlun vekur athygli. Í raun er verið að samþykkja fjóra milljarða í viðbótarfjárfestingu en fjórir milljarðar lækka á móti, aðallega vegna frestunar yfir áramót. Það er því ekki sparnaður. Fjárfestingar á árinu verða tuttugu milljarðar og það er rétt að framúrkeyrslan skiptir milljörðum. Malbikun er minni en að var stefnt. Ekkert fer í bílastæði af þessum tuttugu milljörðum og skammtíma og dagvistunarverkefni helmingast. Aðal atriðið er að borgarsjóður bætir enn á sig skuldum, en þessi frávik upp á fjóra milljarða vekja undrun.“

Eyþór: „Flækjustigið er orðið slíkt að stofna þurfti sérstakan stýrihóp um „miðlæga stefnumótun“ til að samræma stýrihópana 351 og stefnur þeirra.“

Umferðin er föst í vesturátt

Ég veit að þú ert ósammála því sem meirihlutinn nú, og síðustu ára, gerir eða hefur gert. Mig langar samt að spyrja þig hvað hefur helst vantað upp á að gert hafi verið og hverju hefur helst verið ofaukið?

„Kerfið hefur vaxið mikið og ákvarðanataka tekur langan tíma. Flækjustigið er orðið slíkt að stofna þurfti sérstakan stýrihóp um „miðlæga stefnumótun“ til að samræma stýrihópana 351 og stefnur þeirra. Mikið er um kærur og tafir vegna þeirra eru meiri en ætti að vera. Breytingar eru margar umdeildar og lögð hefur verið of mikil áhersla að byggja á dýrum þéttingarreitum. Við lögðum til á fyrsta borgarstjórnarfundi eftir kosningar að farið væri í að skipuleggja Keldur, BSÍ-svæðið og Örfirisey til að auka svigrúmið í borginni. Það er augljós skipulagshalli þar sem umferðin er föst í vesturátt á morgnanna og austurátt síðdegis. Nýting gatnakerfisins á háannatíma er léleg vegna þess að borgarskipulagið beinir hlutfallslega of mörgum í vesturhlutann að degi til. Þetta er ein af ástæðunum að við leggjum áherslu á þessi svæði sem ég nefndi. Stofnanir og fyrirtæki mynda geta byggst upp á Keldum, en í dag fara mörg þeirra í Kópavog. Þessar aðgerðir myndu jafnframt létta á fasteignamarkaðnum sem er of einsleitur í Reykjavík. Og of dýr í byggingu.“

Eyþór: „Við höfum síðan sé að embættismenn hafa verið fengnir til að þagga niður í stjórnandstöðunni og er minnisblað um óþægilega umræðu sennilega eftirminnilegast í þeim efnum. Þar er formlega kvartað yfir því að rætt hafi verið um stærð stjórnkerfisins. Okkar hlutverk sem kjörinna fulltrúa fólksins er að hafa eftirlit með kerfinu, en ekki öfugt.“

Embættismenn þagga niður í stjórnandstöðu

Samskipti milli borgarfulltrúa og eins milli embættismanna og borgarfulltrúa eru títt í fréttum. Aðrir borgarfulltrúar í minnihlutanum hafa kvartað undan og bent á þetta. Hver er þín upplifun? Er slæmur andi i Ráðhúsinu?

„Eitt af einkennum þess þegar fólk hefur verið lengi við völd er að það á það til að taka lítið tillit til skoðana annara. Við höfum síðan sé að embættismenn hafa verið fengnir til að þagga niður í stjórnandstöðunni og er minnisblað um óþægilega umræðu sennilega eftirminnilegast í þeim efnum. Þar er formlega kvartað yfir því að rætt hafi verið um stærð stjórnkerfisins. Okkar hlutverk sem kjörinna fulltrúa fólksins er að hafa eftirlit með kerfinu, en ekki öfugt.“

Þurfum að gera stórátak

Varðandi neyðarskýli fyrir utangarðsfólk og heimilislausa og stöðu félagslegra íbúða í Reykjavík og í nágrannasveitarfélögunum, langar mig að spyrja þig, hefur þú rætt þetta mál við flokksfélagana þína, sem stjórna jú öllum sveitarfélögunum í nágrenni borgarinnar, og þar er staðan mun verri en í borginni?

„Ég tel að við getum öll gert betur og undanskil þar engan. Sjálfur stóð ég að því að koma upp neyðaraðstöðu fyrir húsnæðislausa á Selfossi þegar ég var með hreinan meirihluta Sjálfstæðisflokksins í Árborg. Staðan í Reykjavík er samt einstök. Ekki vegna þess að litlum fjármunum sé varið í málaflokkinn, heldur vegna þess að hér er vandinn langmestur og flestir án góðra úrræða eru staðsettir í Reykjavík. Þrennt veldur. Í fyrsta lagi snarhækkandi húsnæðisverð og leiga vegna aðgerðaleysis borgarmeirihlutans. Í öðru lagi vantar mikið upp á að kerfið vinni í að koma fólki aftur út í lífið. Allt of margir festast í öryggisnetinu. Í þriðja lag vantar neyðarúrræði og þar hafa flokkarnir sem mynda stjórnarandstöðuna leitt umræðuna í sumar. Það er óboðlegt að fólk neyðist til að búa í tjöldum, hjólhýsum og í tjaldvögnum og þurfa síðan að greiða yfir 100 þúsund krónur fyrir stöðuréttinn í borgarlandinu. Við þurfum að gera stórátak í að bæta þetta þrennt og nú er að minnsta kosti búið að viðurkenna vandann í Reykjavík. Um hann er ekki lengur deilt.“

Eyþór segir nóg að gera í borgarmálum og hyggur ekki á annan frama innan flokksins,

Ekki á leið í formannsframboð

Sjálfstæðisflokkurinn Eyþór. Hyggur þú á frekari vegferð innan flokksins? Munt þú sækjast eftir að verða formaður flokksins? Og ef ekki, í æðstu stjórn hans? Flokkurinn þinn er í ríkisstjórn, jafnvel leiðandi þar.

„Ég er fyrst og síðast að horfa á hvað við getum gert í borginni. Ég hef ekki verið að gera tilkall til embætta innan flokksins. Í átta ár vann ég í Árborg og hleypti öðrum að eftir það. Nú er ég með hugann við borgina og hér er mikið verk að vinna.“

Kjararáð unnið gegn ríkisstjórninni

Framundan eru átök á vinnumarkaði, sem geta skipt borgina miklu máli hvernig þau þróast. Finnst þér ríkisstjórnin spila vel úr sínum spilum hvað þetta varðar?

„Mér fannst Kjararáð vinna gegn markmiðum ríkisstjórnarinnar og hækkanir of stórar í einu. Ríkisstjórnin ætti að lækka skatta, en þeir eru mjög háir á laun. Kjöraðstæður eru til að hagræða í ríkisbákninu en það hefur ekki verið gert. Ég vona að ríkisstjórnin tefli fram skattalækkunum í tengslum við kjarasamninga svo unnt sé að auka kaupmátt enn frekar án þess að við fáum hér verðbólgu og gengislækkun. Borgin getur lagt sitt af mörkum með lækkun útsvars og fasteignaskatta en hvoru tveggja rýrir kaupmátt launafólks í Reykavík. Á móti mætti spara í kerfinu og óþörfum fjárfestingum.“

 

 

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: